Viðskipti innlent

Skilanefndir sýna starfsmönnum óbilgirni

Kurr er meðal bankastarfsmanna vegna meintrar óbilgirni skilanefnda SPRON, Sparisjóðabankans og Straums við afgreiðslu á launakröfum og öðrum kjarabundnum réttindum. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að launakröfur séu forgangsmál.

Breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki voru samþykktar á Alþingi 20. apríl síðast liðinn. Í sem fæstum orðum þá er samkvæmt þeim meðal annars heimil aðför að fjármálafyrirtækjum eins og um gjaldþrot væri að ræða þótt félagið sé í raun ekki komið í þrot. Þetta þýðir að engar kröfur má greiða út, ekki heldur launakröfur, í þrengstu túlkun laganna.

Samkvæmt heimildum fréttastofu virðast skilanefndir Sparisjóðabankans, Straums og SPRON einmitt fylgja lagabókstafnum mjög stíft eftir í þessum efnum. Sé það rétt geta fyrrverandi starfsmenn, sem eru á uppsagnarfresti, en sitja heim hjá sér, átt á hættu að fá ekki greidd út launin sín um næstu mánaðamót. Heyrst hefur einnig að skilanefndir hafi farið fram á að starfsmenn afsali sér kjarabundnum starfsréttindum, en því hefur alfarið verið hafnað.

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra segir að bráðabirgðaákvæði við umrædd lög verði lagt fram á Alþingi eins skjótt og hægt er til að gera fyrirtækjum kleift að greiða ákveðnar forgangskröfur að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Þetta ætti meðal annars að taka til launakrafna og taka af allan vafa um rétt launþega í umræddum málum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×