Viðskipti innlent

Skilanefndarmenn þurfa að bera ábyrgð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Álfheiður Ingadóttir segir það mjög skrýtið ef að einstakir starfsmenn eiga að taka ábyrgð á störfum nefndanna. Mynd/ Stefán.
Álfheiður Ingadóttir segir það mjög skrýtið ef að einstakir starfsmenn eiga að taka ábyrgð á störfum nefndanna. Mynd/ Stefán.
Formaður skilanefndar og skilanefndamenn þurfa að bera ábyrgð á störfum nefndanna en ekki einstakir starfsmenn þeirra, segir Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs. Álfheiður var fulltrúi VG í viðskiptanefnd Alþingis fram að kosningum.

Álfheiður segist ekki hafa kynnt sér sölu skilanefndar Gamla Landsbankans á hlut í Byr sparisjóði sem fyrirhuguð var, umfram það sem komið hefur fram í fjölmiðlum. Til stóð að skilanefndin seldi 2,6% hlut í sparisjóðnum en eftir að sagt var frá málinu í kvöldfréttum Stöðvar 2 á mánudaginn lýsti skilanefndin því yfir að hætt hefði verið við söluna vegna þess að ekki hefði fengist samþykki fyrir henni hjá skilanefndinni. Seinna lýsti upplýsingafulltrúi skilanefndar því yfir að ákvörðun um söluna hefði verið tekin af starfsmönnum skilanefndarinnar en ekki skilanefndarmönnum. Álfheiður segist ekki telja að þetta hafi verið eðlilegur framgangsmáti. Salan hafi verið stöðvuð og það sé mjög gott.



Ekki gott að benda á aðra


Aðspurð segist Álfheiður þó ekki vita hvort hún telji skýringar upplýsingafulltrúans, að starfsmenn nefndarinnar hafi ákveðið söluna, trúverðugar. „Almennt er það ekki góður siður, hjá mönnum sem bera ábyrgð, að benda á aðra. Og ef það er þannig að það eru bara einhverjir starfsmenn sem taka ákvarðanir og bera ábyrgð, þá er það mjög skrýtið," segir Álfheiður.

Álfheiður segist telja eðlilegt, óháð eðli málsins sem um ræðir, að þeir sem beri raunverulega ábyrgð á störfum skilanefndanna sem slíkra, það er skilanefndamenn og formaður skilanefndarinnar, axli ábyrgð á störfum nefndarinnar. Þeir geti ekki vísað henni frá sér. „Við tölum um gagnsæi í störfum og framgangsmáta í þessum efnum og það er vonandi að það sé alls staðar," segir Álfheiður.

Fréttastofa hefur ítrekað reynt að ná sambandi við Lárus Finnbogason, formann skilanefndar Gamla Landsbankans, vegna málsins. Lárus hefur ekki svarað.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×