Viðskipti innlent

Icejet flýgur burt frá fjármálakreppunni á Íslandi

Einkaþotuleigan Icejet hefur flutt fjórar af fimm Dornier 328 þotum sínum frá landinu og eru tvær þeirra nú reknar frá flugvellinum í Oxford á Englandi, ein er rekin frá Le Bourget í París og ein frá Riga í Lettlandi.

Jón Ingi Jónsson framkvæmdastjóri Icejet segir í samtali við Aviation International News að rekstur þeirra hafi sennilega verið erfiðari en hjá nokkurri annarri einkaþotuleigu í Evrópu á síðustu sex mánuðum. Fyrir utan verulega samdrátt í eftirspurn hafi bankahrunið á Íslandi leitt til þess að fyrirtækinu gekk erfiðlega að afla sér þeirra tekna sem nægja til að standa undir rekstrinum.

Nú þegar stærri hluti tekna Icejet kemur í evrum hefur fyrirtækinu tekist að koma sér undan sveiflum á gengi krónunnar.

„Við erum vinsælir meðal rokkstjarna og prinsessa," segir Jón Ingi sem einnig starfar sem flugstjóri hjá Icejet.

Fram kemur í umfjölluninni að eigendur Icejet íhuguðu um tíma að breyta nafni fyrirtækisins en féllu frá þeim áformum. Hinsvegar eru enn áforum uppi um að selja eina af þotum fyrirtækisins.

Icejet er í eigu Nordic Partners. Fyrir utan þoturnar rekur fyrirtækið eigin viðhaldsþjónustu á Reykjavíkurflugvelli.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×