Viðskipti innlent

Samstarf Norðurlanda um erfðaauðlindir kynnt hjá SÞ

Norðurlöndin starfa meðal annars með genabönkum í Afríku og Mið-Asíu og þau reka öryggisgeymslu fyrir fræ á Svalbarða. Fræ frá stórum hluta heimsins eru þegar geymd í geymslunum á Svalbarða.

Kynning á þessu starfi, sem fellur undir Norrænu ráðherranefndina fer fram á árlegri ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem stendur nú yfir í New York. Greint er frá málinu á vefsíðunni norden.org.

Norræna ráðherranefndin og NordGen, norræna stofnunin um samstarf um erfðaauðlindir, standa fyrir viðburði í byggingu Sameinuðu þjóðanna þann 13. maí, en þar munu norrænar lausnir verða kynntar. Norrænir og alþjóðlegir sérfræðingar á sviðinu, meðal annars frá FAO, Worldwatch Institute og The Global Crop Diversity Trust munu þar leggja sitt af mörkum.

„Það er mikilvægt fyrir Norðurlöndin að efla öryggi matvæla sem framleidd eru í landbúnaði með varðveislu og sjálfbærri nýtingu erfðaauðlinda", segir Halldór Ásgrímsson framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar í grein sem meðal annars birtist á loftslagssíðu Sameinuðu þjóðanna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×