Viðskipti innlent

Hagsjá: Spáir 8,9% ársverðbólgu í október

Hagfræðideild Landsbankans spáir því að verðbólga milli september og október mælist 0,4%. Gangi spáin eftir mun 12 mánaða verðbólga lækka þó nokkuð og mælast 8,9% í október samanborið við 10,8% í september. Þetta yrði því í fyrsta skipti í 18 mánuði sem 12 mánaða verðbólga mælist undir 10%.

Fjallað er um málið í Hagsjá hagfræðideildarinnar. Þar segir að í október megi búast við að verð á mat- og drykkjarvöru hækki nokkuð vegna áhrifa af vörugjaldahækkuninni í síðasta mánuði. Aftur á móti bendir flest til þess að fasteignaverð sé ennþá á niðurleið, þrátt fyrir fjörkipp í síðasta mánuði.

Spáin gerir ráð fyrir um 0,05% áhrifum til lækkunar vísitölu neysluverðs (VNV) í október. Þá hefur eldsneyti lækkað lítillega frá síðustu mælingu en að öllu óbreyttu má reikna með að sú lækkun hafi u.þ.b. 0,06% áhrif til lækkunar VNV.

Hækkun vörugjalda á ýmsa matvöru tók gildi þann 1. september, og á hagfræðideildin von á að breytingu vörugjaldanna verði að mestu leyti velt hratt út í verðlagið. Hluti hækkananna kom fram í september en þá hækkuðu mat- og drykkjarvörur um að meðaltali 1,6% frá fyrri mánuði.

Þegar sundurliðun hækkunarinnar er skoðuð kemur glöggt í ljós að hækkun vörugjaldanna hefur þar mikið að segja en gosdrykkir hækkuðu að jafnaði um 7,4% milli mánaða, kökur og sætabrauð um tæplega 8% og sælgæti og ís um u.þ.b. 4%.

Þrátt fyrir þessa hækkun í september er líklegt að áhrifin séu ekki að fullu komin fram og því má einnig búast við nokkurri hækkun á matvöru nú í októbermælingunni. Í spánni ráð fyrir 1-1,5% hækkun matvöru milli september og október.

„Þrátt fyrir óvænta hækkun á fasteignaliðnum í síðasta mánuði eigum við von á að sú þróun haldi ekki áfram í október en í spá okkar gerum við ráð fyrir um 0,05% áhrifum til lækkunar VNV í mánuðinum. Þá hefur eldsneyti lækkað í verði milli mánaða. Ef frá er talin verðhækkun á matvöru þá eigum við aðeins von á hóflegum hækkunum á öðrum liðum," segir í Hagsjánni.

„Krónan hefur haldist tiltölulega stöðug frá því síðastliðið vor en gengisvísitalan hefur sveiflast á bilinu 230-240 frá því í byrjun júní. Jafnvel þó að gengi krónunnar sé enn lágt þá er þessi stöðugleiki jákvæð tíðindi hvað verðlagsþróunina varðar þar sem verðbólguþrýstingur vegna gengisins hefur minnkað hægt og bítandi."

Það sem eftir lifir árs má búast við hratt dvínandi verðbólgu. Að því gefnu að gengi krónunnar haldist nokkuð stöðugt á næstunni má áætla að 12 mánaða verðbólga gæti verið komin í námunda við 6% í lok árs, að mati hagfræðideildarinnar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×