Viðskipti innlent

Ríkissafn Íslandssjóða yfir 10 milljarða að stærð

Vel á annað þúsund aðilar, bæði einstaklingar og fagfjárfestar, hafa fjárfest í Ríkissafni Íslandssjóða fyrir rúma 10 milljarða króna frá stofnun hans í desember síðastliðnum.

Í tilkynningu segir að Ríkissafnið fjárfestir eingöngu í ríkistryggðum skuldabréfum með stuttan líftíma og innlánum hjá fjármálafyrirtækjum. Með fjárfestingu í sjóðnum næst því góð eignadreifing milli þessara eignaflokka. Virk stýring er á sjóðnum og hann hefur sýnt góða ávöxtun frá stofnun. Sjóðurinn hentar vel fyrir þá sem vilja ávaxta fé sitt til þriggja mánaða eða lengur og halda sveiflum í ávöxtun í lágmarki.

Mikil eftirspurn er eftir ríkistryggðum skuldabréfum um þessar mundir, sérstaklega þar sem Seðlabanki íslands hefur lækkað stýrivexti sína nokkuð ört síðustu mánuði. Við slíkar aðstæður, og í ljósi þess að vaxtalækkunarferlið er tiltölulega nýhafið, er að öllu jöfnu ákjósanlegt að eiga skuldabréf, þar sem lækkun ávöxtunarkröfu á markaði hækkar markaðsverðmæti skuldabréfa.

Ríkisskuldabréf og sjóðir sem í þeim fjárfesta hafa því í mörgum tilfellum gefið betri ávöxtun en innlán á sama tímabili, að því er segir í tilkynningunni.

Rekstraraðili Ríkissafnsins er Íslandssjóðir, dótturfélag Íslandsbanka, sem er leiðandi aðili í stýringu og rekstri íslenskra skuldabréfasjóða.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×