Viðskipti innlent

Óvíst hvort forsætisráðherra er heimilt að reka Seðlabankastjóra

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bankastjórar Seðlabanka Íslands.
Bankastjórar Seðlabanka Íslands.

Óvíst er hvort forsætisráðherra hafi lagalega heimild til þess að víkja bankastjórum Seðlabankans úr sætum sínum komi ekki til skipulagsbreytingar í bankanum. Margrét Vala Kristjánsdóttir, lektor við lagadeild í Háskólanum í Reykjavík, segir að grunnspurningin sé sú hvort starfsmannalög eigi við í tilfelli Seðlabankastjóra. Samkvæmt þeim sé hægt að víkja embættismönnum úr starfi á tveimur forsendum. Sé um að ræða ávirðingar á embættismanninn þurfi að veita honum áminningu áður en að til brottvikningar úr starfi kemur.

Hins vegar þurfi ekki að veita áminningu ef brottvikning er af öðrum ástæðum, svo sem vegna skipulagsbreytinga. Margrét segir að ef embættismönnum er vikið úr starfi án þess að fyrrgreindum skilyrðum sé fullnægt geti viðkomandi embættismaður látið á það reyna fyrir dómsstólum hvort starfsmannalög hafi átt við og þau verið brotin.

Geir Haarde starfandi forsætisráðherra hefur sagt í fjölmiðlum að til greina hafi komið að breyta lögum um Seðlabankann og sameina Seðlabanka og Fjármálaeftirlitið. Með því hefði hugsanlega skapast skilyrði til þess að víkja bankastjórunum úr starfi.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×