Viðskipti innlent

OECD: Nauðsynlegt að skera niður landbúnaðarstyrki

Í nýrri skýrslu OECD um íslensk efnahagsmál er tekið fram að nauðsynlegt sé að skera niður styrki hins opinbera til íslensks landbúnaðar. Þessir styrkir eru þeir hæstu meðal ríkja OECD eða 61% af brúttótekjum greinarinnar. Til samanburðar eru styrkirnir að meðaltali 23% í OECD eða nær þrefalt lægri.

Tölurnar sem hér um ræðir eru frá árinu 2007 og athygli vekur að þær samræmast ekki tölum sem Bændasamtökin sjálf hafa gefið út. Bændasamtökin segja að fyrrgreint hlutfall ríkisstyrkja 2007 hafi verið 57% af brúttótekjunum. Álíka misræmi er á tölum OECD og Bændasamtakanna fyrir árið 2006.

OECD skýrslan er skrifuð af Andrea De Michelis og var gefin út í síðasta mánuði. Þar segir að nauðsynin á því að skera niður í fjármálum hins opinbera ætti einkum að ná til þeirra opinberu styrkja sem ekki koma hinum almenna neytenda til góða. „Styrkjakerfi landbúnaðarns liggur hátt á þeim lista," segir í skýrslunni. „Það kemur í veg fyrir breytingar og setur miklar byrðar á skattgreiðendur og neytendur."

Fram kemur að heildaryfirfærsla á fjármagni úr sjóðum hins opinbera til bænda nemi um 1% af landsframleiðslunni eða næstum eins mikið og vægi landbúnaðarins er í landsframleiðslunni. Verð sem bændur fá fyrir afurðir sínar með núverandi kerfi eru 2,5 sinnum hærri en heimsmarkaðsverð. Því séu brúttótekjur íslenskra bænda um það bil þrefalt hærri en þær væru samkvæmt heimsmarkaðsverðum á afurðum þeirra.

Þau lönd í Evrópu innan OECD sem komast næst Íslandi að styrkja bændur sína eru Noregur þar sem styrkirnir nema 53% af brúttótekjum og Sviss þar sem hlutfallið er 50%. Meðaltalið innan ESB er hinsvegar 26%. Nýja Sjáland er aftur það land sem minnst styrkir landbúnað sinn eða um 1% af brúttótekjum bænda þar í landi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×