Viðskipti innlent

VBS ætlar að óska eftir viðskiptabankaleyfi

VBS fjárfestingarbanki ætlar að óska eftir viðskiptabankaleyfi á næstunni. Þetta kemur fram í tilkynningu um aðalfund félagsins sem haldinn var í vikunni.

Í tilkynningunni segir að þegar litið er fram á veginn eru margir óvissuþættir í ytra umhverfi fjármálafyrirtækja sem geta haft áhrif á afkomu VBS fjárfestingarbanka sem og annarra fyrirtækja á Íslandi.

Á heildina litið hefur þó ýmislegt áunnist og þokast í rétta átt. Það sem af er ári 2009 hefur rekstur, stefna og markmið bankans verið áfram í endurskoðun þar sem lögð hefur verið mikil áhersla á virka stjórnun og aðlögun áætlana að gerbreyttum aðstæðum.

Áætlanir eru miðaðar að áframhaldandi sókn með þá trú að í erfiðleikunum felist mikilsverð viðskiptatækifæri fyrir bankann. Framundan eru krefjandi verkefni fyrir starfsfólk VBS fjárfestingarbanka svo sem umsókn um viðskiptabankaleyfi sem opnar nýja möguleika til útvíkkunar á starfsemi bankans.

Auk nýrra tækifæra mun bankinn áfram einbeita sér að eflingu kjarnastarfseminnar með það að markmiði að leggja sitt af mörkum til að taka þátt í uppbyggingu íslensks athafnalífs

Á fyrsta fundi stjórnar sem haldin var strax að loknum hluthafafundi var Páll Þór Magnússon kjörin stjórnarformaður og Sigrún Helgadóttir varaformaður.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×