Erlent

Tuttugu ár síðan múrinn féll

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Í dag eru 20 ár liðin síðan landamærahlið Berlínarmúrsins voru opnuð og þetta 43 kílómetra langa tákna kalda stríðsins varð að sögulegum minnisvarða.

Það var sunnudaginn 13. ágúst 1961 sem gaddavírsgirðing var lögð gegnum Berlín og borginni skipt í austur og vestur að undirlagi þeirra Nikita Krushchev, aðalritara sovéska kommúnistaflokksins, og Walters Ulbricht, leiðtoga kommúnista í Austur-Þýskalandi. Sama dag var hafist handa við að reisa múrinn illræmda sem stóð fram á haustdaga 1989, steingrátt tákn um kalda stríðið og gjána milli austurs og vesturs.

Í dag eru 20 ár liðin frá deginum sem Þjóðverjar kalla Tag des Mauerfalles, daginn sem múrinn féll. Mikil fagnaðarlæti brutust út þegar landamærahliðin voru opnuð og Austur-Þjóðverjar ruddust yfir til vesturs án skilríkja og án þess að nokkur væri skotinn en í október 1973 gáfu austurþýsk yfirvöld landamæravörðum sínum fyrirskipun um að skjóta alla þá sem reyndu að lauma sér í heimildarleysi frá austri til vesturs og hika ekki þótt konur og börn væru notuð sem skildir en það væri þekkt bragð þeirra sem reyndu að flýja.

Þrátt fyrir þetta tókst um 5.000 manns að flýja yfir til Vestur-Berlínar þann tíma sem múrinn stóð en deilt er um fjölda þeirra sem skotnir voru til bana við að reyna að komast yfir. Forstöðumaður Checkpoint Charlie-safnsins, en Charlie var ein þriggja landamærastöðva þar sem fólki var hleypt í gegn að uppfylltum skilyrðum, telur að fjöldi þeirra sé þó vel yfir 200.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×