Viðskipti innlent

Atvinnuleysi minnkar, var 8,7% í maí

Skráð atvinnuleysi í maí 2009 var 8,7% eða að meðaltali 14.595 manns og minnkar atvinnuleysi um 1,5% að meðaltali frá apríl eða um 219 manns. Á sama tíma á árinu 2008 var atvinnuleysi 1%, eða 1.739 manns.

Í frétt um málið á vefsíðu Vinnumálastofnunnar segir að vegna árstíðasveiflu eykst áætlað vinnuafl í 167.789 manns í maí eða um rúm 5.000 sem hefur áhrif á reiknað atvinnuleysishlutfall til lækkunar.

Atvinnuleysi er nú mest á Suðurnesjum 14,2% en minnst á Vestfjörðum 2,3%. Atvinnuleysi breytist lítið á höfuðborgarsvæðinu en minnkar um 4,6% á landsbyggðinni.

Alls staðar dregur úr atvinnuleysi á landsbyggðinni. Hlutfallslega dregur mest úr atvinnuleysi á Austurlandi eða um 67 manns og fer atvinnuleysi þar úr 5,2% í 4,1%.

Atvinnuleysi eykst um 2,9% meðal kvenna en minnkar um 3,8% meðal karla. Atvinnuleysið er 9,7% meðal karla og 7,4% meðal kvenna.

Langtímaatvinnuleysi er nú tekið að aukast og þeir sem verið hafa á skrá lengur en 6 mánuði voru 4.836 í lok maí en 3.269 í lok apríl og eru nú um 30% allra á atvinnuleysisskrá.

Þeir sem verið hafa atvinnulausir í meira en ár voru 435 í lok maí en 361 í lok apríl.

Atvinnulausum 16-24 ára hefur fjölgað úr 3.588 í lok apríl í 3.734 í lok maí og eru þeir um 23% allra atvinnulausra í maí en voru um 21% í lok apríl.

Yfirleitt batnar atvinnuástandið frá maí til júní, m.a. vegna árstíðasveiflu en gera má ráð fyrir að einhver fjöldi nemenda komi á atvinnuleysisskrá í júní.

Erfitt er að áætla atvinnuleysi um þessar mundir vegna mikillar óvissu í efnahagslífinu,en líklegt er að atvinnuleysið í júní 2009 muni minnka og verða á bilinu 7,9%-8,4%, talsverð aukning er á framboði vinnuafls milli maí og júní, sem nemur um 6.700 manns og hefur áhrif á reiknað atvinnuleysi. Í fyrra var atvinnuleysið 1,1%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×