Handbolti

Ólafur gulltryggði Ciudad Real Evrópumeistaratitilinn í lokin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Stefánsson var frábær á úrslitastundu í dag.
Ólafur Stefánsson var frábær á úrslitastundu í dag. Mynd/Vilhelm

Ólafur Stefánsson vann Meistaradeildina í fjórða sinn á ferlinum þegar hann og félagar hans í Ciudad Real unnu sex marka sigur á Kiel, 33-27, í seinni úrslitaleiknum á Spáni í dag. Ólafur átti mjög góðan leik og var markahæstur hjá Ciudad með átta mörk.

Kiel vann fyrri leikinn í Þýskalandi með fimm mörkum, 39-34, og kom því með fimm mörk í veganesti í seinni leikinn. Líkt og í fyrra sýndu Ólafur og félagar mikinn karakter og unnu frábæran sigur.

Kiel var miklu sterkari í fyrri hálfleik og var lengi með þriggja stiga forskot en Ciudad Real náði að minnka muninn niður í eitt mark, 14-13, fyrir hálfleik. Ólafur Stefánsson skoraði síðasta mark hálfleiksins úr vítaskoti eftir að leiktímanum lauk.

Kiel hóf seinni hálfleik af krafti og var fljótlega komið með fjögurra marka forskot eða níu marka forskot samtals. Þá small spænska liðið í mikið stuð og breytti stöðunni úr 16-20 í 27-24 á 15 mínútna kafla.

Ciudad Real hélt áfram að auka forskotið og vonin glæddist með hverju marki. Titillinn sem var svo fjarlægur skömmu áður var allt í einu í sjónmáli. Lokakaflinn var síðan ótrúlegur, Ciudad Real vann lokamínúturnar 6-1 og tryggði sér sigurinn.

Ólafur skoraði tvö af þessum sex mörkum á lokakaflanum þar á meðal lokamarkið sem gulltryggði Evrópumeistaratitilinn. Hann skoraði alls átta mörk úr tólf skotum og var markahæstur á vellinum.

Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í Kiel misstu hreinlega frá sér sigurinn í dag. Þeir voru í frábærri stöðu en síðan var eins og það væri slökkt á liðinu í vörn og sókn. Alfreð tók leikhlé í stöðunni 26-23 fyrir Ciudad en það náði ekki að kveikja í hans mönnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×