Erlent

Best að búa í Noregi - Ísland í þriðja sæti

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Kona á gönguskíðum í úthverfi Óslóar.
Kona á gönguskíðum í úthverfi Óslóar. MYND/Reuters/Scanpix

Ísland er ofarlega á lista Sameinuðu þjóðanna yfir þau lönd þar sem lífsskilyrði eru best í heiminum.

Ísland vermir þriðja sæti listans sem birtur er í nýrri skýrslu þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna. Í fyrsta og öðru sætinu eru hins vegar Noregur og Ástralía. Gögnunum, sem skýrslan er byggð á, var reyndar safnað árið 2007 svo útkoman gæti hæglega orðið önnur ef byggt væri á nýjum gögnum.

Það er þó engan veginn víst þar sem þættirnir, sem stuðst er við til að reikna lífsskilyrðin út, eru gæði menntunar, lífslíkur í viðkomandi landi og þjóðarframleiðsla. Töluverð gjá er á milli þróaðra og vanþróaðra ríkja í skýrslunni og flest ríkjanna sem aftast eru á listanum eru Afríkuríki þar sem menntunarstig er lágt og sjúkdómar á borð við eyðni ógna lífi milljóna, svo sem í Kongó, Niger og Chad.

Fimm ríki, Kína, Venesúela, Perú, Kólumbía og Frakkland, hækka sig um þrjú sæti eða meira frá því síðasta skýrsla kom út í fyrra og ráða þar auknar lífslíkur og hærri tekjur mestu. Meðallífslíkur Japana eru mestar, 82,7 ár en íbúar Niger mega ekki búast við að lifa lengur en 50 ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×