Skoðun

Breytingin í borginni

Óskar Bergsson skrifar

Það er ánægjulegt að lesa út úr þjóðarpúlsi Gallup þær viðhorfsbreytingar sem hafa orðið gagnvart starfinu í borgarstjórn Reykjavíkur á milli ára. Fyrir ári voru 69% aðspurðra óánægð með meirihluta F-lista og Sjálfstæðisflokks en nú í meirihlutatíð framsóknarmanna og sjálfstæðismanna hefur óánægjan farið niður í 28%. Aðeins 14% voru ánægð með meirihlutann 2008 en nú í ágúst eru 33% ánægð með störf meirihlutans. Fyrir ári höfðu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur aðeins 31% fylgi en eru nú með 45% fylgi. Hópur þeirra sem ekki taka afstöðu breytist milli ára úr 18% í 40%.

Niðurstöðurnar sýna svo ekki verður um villst að algjör umskipti hafa orðið í viðhorfi almennings gagnvart borgarstjórn Reykjavíkur. Meginskýringin á þessum viðhorfsbreytingum er að Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki hefur tekist að mynda starfhæfan og traustan meirihluta þar sem sleginn hefur verið nýr tónn í samráði og samstarfi við minnihlutann. Lykillinn að árangrinum er þverpólitískt samstarf og samstaða sem náðist um aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar vegna breytinga í efnahags- og atvinnulífi. Í þeirri áætlun er meginstefið að standa vörð um grunnþjónustuna, verja störf starfsmanna borgarinnar, hækka ekki gjaldskrár og fara í framkvæmdir til þess að halda hér uppi atvinnu á samdráttartímum. Allt þetta hefur gengið eftir auk þess sem tekjur og útgjöld eru enn þá samkvæmt fjárhagsáætlun.

Annað sem fram kemur í könnuninni er að Framsóknarflokkurinn hefur nærri tvöfaldað fylgi sitt í borginni milli ára samkvæmt sömu könnun og mælist í fyrsta skipti á kjörtímabilinu með mann inni. Þetta eru skýr skilaboð um að ákvörðunin um að fella meirihluta Sjálfstæðisflokks og F-lista var rétt og breyting á vinnubrögðum og starfsháttum í borgarstjórn Reykjavíkur var orðin löngu tímabær.

Höfundur er borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og formaður borgarráðs.










Skoðun

Sjá meira


×