Innlent

Svavar Gests: Skrápurinn þynnri en hann var

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Svavar Gestsson, formaður samninganefndar Íslands í Icesave deilunni.
Svavar Gestsson, formaður samninganefndar Íslands í Icesave deilunni. Mynd/ Pressen Bild / Fredrik Persson
Svavar Gestsson, formaður samninganefndar Íslands í Icesave deilunni, svarar Þór Saari, þingmanni borgarahreyfingarinnar, í grein í Morgunblaðinu í dag.

Sá síðarnefndi hafði farið óblíðum orðum um Svavar í viðtali í gær.Þar sagði Þór meðal annars:

„Maður sér það bara á honum þegar maður talar við hann að hann hefur ekkert í þetta að gera, ekki nokkurn skapaðan hlut. Það sem meira er að enginn samninganefndarmannanna held ég."

Svavar segist vera orðinn vanur að taka við slíkum kveðskap eftir langa tíð í stjórnmálum, en viðurkennir þó að skrápurinn sé orðinn þynnri en hann var. Þá segist Svavar svíða að reynt sé að nudda öðrum upp úr því sem hann á einn, og á þá við hina samningamennina í nefndinni.

Hann fullyrðir að nefndin hafi verið skipuð hæfum manni í hverju rúmi og heitir á fólk að láta aðra í samninganefndinni í friði þótt það vilji sækja mál sitt og verja af hörku.

Svavar lýkur greininni á að beina orðum sínum til Þórs Saari:

„Hann boðaði ný vinnubrögð á Alþingi. Persónulegt skítkast er ekki beinlínis frumlegt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×