Innlent

Vesturgata verður vistgata

Framkvæmdir hefjast nú í vikulok við að breyta Vesturgötu milli Aðalstrætis og Grófarinnar í vistgötu. Vesturgötu verður einnig á þessum kafla breytt í einstefnugötu. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að gróðurbeðum verði komið fyrir í götunni og hún fegruð. „Efniviður er valinn til að skapa vistlega stemmingu og tengja við Grófartorg og annað sem fyrir er. Gróðurbeð verða úr grásteini og brústeini; pollar verða úr grágrýti, en þeir hindra að bílum sé lagt upp á gangstétt. Þá verður snjóbræðslu komið fyrir á gönguleiðum."

Gangandi fá forgang

Gatan verður merkt sem vistgata og einnig verður hluti Hafnarstrætis frá Aðalstræti að Veltusundi merkt á sama hátt. Verkefnið er hluti af „grænum skrefum" í Reykjavík. „Vistgata þýðir að gangandi og hjólandi vegfarendur hafa forgang fram yfir bílaumferð, eins og segir í umferðarlögum. Gangandi vegfarandi má þó ekki hindra för ökutækis að óþörfu. Heimilt er að dveljast og vera að leik á vistgötu. Hámarkshraði er 15 km á klst. og skal ökumaður sýna gangandi vegfaranda sérstaka tillitssemi og víkja fyrir honum, eins og segir í umferðarlögum."

Fyrirtækið Hellur og gras annast framkvæmdina og er áætlað að verkinu verði lokið fyrir 10. nóvember. Verkeftirlit annast verkfræðistofan Hnit. Kostnaður við verkið í heild er áætlaður 7 milljónir króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×