Innlent

Segir þjónustuíbúðir aldraðra allt of dýrar

Öryggisíbúðir Í öryggisíbúðum Eirar er hjúkrunarfræðingur á vakt allan sólarhringinn og ýmiss konar öryggisbúnaður fyrir íbúa.Fréttablaðið/Hörður
Öryggisíbúðir Í öryggisíbúðum Eirar er hjúkrunarfræðingur á vakt allan sólarhringinn og ýmiss konar öryggisbúnaður fyrir íbúa.Fréttablaðið/Hörður

Afar óeðlilegt er að leiguverð í nýjum þjónustuíbúðum fyrir aldraða sem velferðarsvið Reykjavíkurborgar úthlutar sé svo hátt að þeir tekjulægstu í hópi aldraðra hafi engan möguleika á að greiða húsaleiguna, segir Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.

Með þjónustugjaldi gætu leigjendur í nýjum þjónustuíbúðum Eirar við Fróðengi þurft að greiða um 115 þúsund fyrir um 40 fermetra íbúð, eða um 165 þúsund fyrir rúmlega 60 fermetra íbúð, samkvæmt upplýsingum frá velferðarsviði borgarinnar.

Íbúðirnar eru nýjar, og í fyrsta áfanga eru tvær 40 fermetra íbúðir og fimm 60 fermetra íbúðir sem velferðarsvið hefur til útleigu.

Björk bendir á að eitt af þeim skilyrðum sem fólk þurfi að uppfylla til að fá þjónustuíbúð eldri borgara á vegum borgarinnar sé að hafa að mati félagsráðgjafa ekki möguleika á því að kaupa eigið húsnæði eða búseturétt sem henti.

„Það er ekki eðlilegt að við séum að greiða fólki laun og lífeyri sem dugir ekki fyrir leigu á svo litlum íbúðum,“ segir Björk.

Eldri borgarar sem hafa eingöngu tekjur frá Tryggingastofnun hafa um 155 þúsund krónur útborgaðar á mánuði. Við það geta bæst 18 þúsund króna húsaleigubætur, samtals 173 þúsund krónur. Vildi eldri borgari með þær tekjur leigja 40 fermetra íbúð ætti hann um 53 þúsund krónur eftir á mánuði þegar leigan væri greidd.

Þá er leiguverð á hvern fermetra, með öllu inniföldu, umtalsvert hærra í þjónustuíbúðunum en á almennum markaði, eins og sjá má í meðfylgjandi töflu.

Jórunn Frímannsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar, segir að borgin sé nú að fara yfir reglur um sérstakar húsaleigubætur með það í huga að fólk sem leigir íbúðir sem þessar geti átt rétt á bótunum. Þær geta numið rúmlega 15 þúsund krónum á mánuði að hámarki.

„Ef það kemur í ljós að enginn hefur efni á að leigja þessar íbúðir verður að endurskoða úthlutun í íbúðirnar,“ segir Jórunn. Hún segist sannfærð um að leigjendur fáist í íbúðirnar.

Björk segir að þörf sé á nýjum hugsunarhætti í búsetumálum aldraðra. Það sé úrelt hugsun að aldraðir sem búi í húsnæði sem henti þurfi að flytja í sérstakar þjónustuíbúðir til að fá þá þjónustu sem þeir þurfi.

Jórunn bendir á að slík þjónusta sé þegar til staðar, og sífellt verið að þróa hana. Einnig sé ljóst að eldri borgarar sæki það margir fast að komast í sérstakar þjónustuíbúðir, og við því sé borgin að bregðast. brjann@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×