Innlent

Piltar í miklum minnihluta

tollering í mr Töluvert fleiri stúlkur en piltar verða tolleraðar næsta haust. Um 57 prósent nemenda sem teknir voru inn fyrir næsta skólaár voru stúlkur.fréttablaðið/vilhelm
tollering í mr Töluvert fleiri stúlkur en piltar verða tolleraðar næsta haust. Um 57 prósent nemenda sem teknir voru inn fyrir næsta skólaár voru stúlkur.fréttablaðið/vilhelm

Töluvert fleiri stúlkur voru teknar inn í Menntaskólann í Reykjavík en strákar fyrir næsta skólaár. Af þeim sem tekin voru inn var 151 stúlka og 115 piltar. Stúlkur á fyrsta ári verða því um 57 prósent nemenda þess árs.

Ekki er óvenjulegt að fleiri stúlkur séu teknar inn, að sögn Bjarna Gunnarssonar, konrektors MR. Þetta sé þó ívið meira en oftast hafi verið. Ekki var reynt að jafna hlutfallið milli kynjanna. Miðað var við einkunnina 8,4 á náttúrufræðibraut og 8,2 á málabraut þegar umsækjendur voru metnir.

Í Verzlunarskóla Íslands er hlutfallið hærra. Stúlkur eru um 63 prósent þeirra sem fengu inngöngu fyrir næsta skólaár og piltar um 37 prósent. Inngöngu fengu 308 nemendur; 194 stúlkur og 114 piltar. Engin sérstök viðmiðunareinkunn var í Verzló en langflestir nemendur voru með yfir 8,5 í meðaleinkunn úr grunnskóla.

Ekki er búið að taka tölur um kynjahlutfall saman í Menntaskólanum við Hamrahlíð að sögn G. Pálma Magnússonar, konrektors MH. Verið er að vinna í því.

Í fyrstu atrennu voru þeir lægstu sem komust inn með 7,5 í meðaleinkunn. Þegar taka átti inn þá sem völdu MH sem aukaval þurfti hins vegar að vísa fólki frá sem var langt yfir 8,5 í meðal-einkunn.

„Við bjuggumst ekki við að Verzló og MR vísuðu fólki með svona háar einkunnir frá,“ segir Pálmi.- vsp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×