Viðskipti innlent

Skráð atvinnuleysi var 9,1% í apríl

Skráð atvinnuleysi í apríl 2009 var 9,1% og jókst úr 8,9% í mars, eða um 1,8%. Að meðaltali voru 14.814 manns atvinnulausir í apríl eða 268 fleiri að jafnaði en í mars. Á sama tíma á árinu 2008 var atvinnuleysi 1%, eða 1.717 manns að jafnaði.

Þetta kemur fram á vefsíðu Vinnumálastofnunnar. Þar segir að atvinnuleysi jókst um tæp 4% á höfuðborgarsvæðinu frá marsmánuði, en hefur dregist saman um rúm 2% á landsbyggðinni.

Mest hefur dregið úr atvinnuleysi á Norðurlandi eystra þar sem atvinnuleysið minnkaði úr 8,8% í mars í 8,3% í apríl. Einnig hefur dregið úr atvinnuleysi á Austurlandi (úr 5,5% í 5,2%) og á Suðurlandi (úr 7,4% í 7,2%). Annars staðar hefur atvinnuleysið staðið í stað eða aukist lítið eitt.

Þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi aukist að meðaltali milli mars og apríl hefur atvinnulausum á skrá fækkað um 72 frá í lokum mars til loka apríl. Fækkunin kemur fram á landsbyggðinni þar sem fækkað hefur um 278 manns, en á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað um 206 manns frá lokum mars til loka apríl.

Yfirleitt batnar atvinnuástandið frá apríl til maí, m.a. vegna upphafs árstíðasveiflu. Í fyrra var atvinnuleysið svipað í báðum mánuðum og mældist 1%. Nú er hins vegar mun meiri samdráttur í hagkerfinu.

Gera má ráð fyrir talsverður fjölda skólanema á atvinnuleysisskrá, en minna er um ráðningar vegna atvinnuástandsins nú en undanfarin ár.

Á móti kemur að meira er um að boðið sé upp á sumarnám í ýmsum háskóladeildum. Þá koma nemendur inn á atvinnuleysisskrá seint í mánuðinum og vega þar af leiðandi lítið í skráðu atvinnuleysi maímánaðar.

Erfitt er að áætla atvinnuleysi um þessar mundir vegna mikillar óvissu í efnahagslífinu, en líklegt er að atvinnuleysið í maí 2009 muni lítið breytast og verða á bilinu 8,8%-9,3%.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×