Viðskipti innlent

Gengi krónunnar komið í 190 fyrir evru hjá Reuters

Krónugengið í miðlunarkerfi Reuters hefur farið niður í 190 kr. fyrir evruna í vikunni og algengt er að gengið sé á bilinu 192 til 195 kr. Þarna er því um minnsta mun á genginu utan og innlands að ræða frá því fyrir bankahrunið s.l. haust.

Þar að auki virðist ekki um lítil viðskipti að ræða hjá Reuters og raunar má leiða líkur að því að viðskiptin séu jafnvel meiri á stundum en á millibankamarkaðinum hér heima, að mati Jóns Bjarka Bentssonar hjá greiningardeild Íslandsbanka.

„Viðskiptin á millibankamarkaðinum hér heima eru að lágmarki hálf milljón evra í hvert skipti og ég á ekki von á að mikið minni upphæðir séu að skipta um hendur í miðlunarkerfi Reuters," segir Jón Bjark. „Og viðskiptin hjá Reuters eru fleiri en á millibankamarkaðinum eða að jafnaði u.þ.b. tíu á dag á móti tveimur til fimm hér heima."

Aðspurður um ástæður þessarar þróunar nú segir Jón Bjarki að leiða megi líkum að því að svokölluð krónubréfaleið Seðlabanka Íslands hafi hér áhrif í þá átt að gengið erlendis sé að þokast í átt að hinu opinbera gengi. „Þeir sem kallaðir eru óþolinmóðir erlendir krónubréfaeigendur eru sennilega í einhverjum mæli að selja krónur sínar til þeirra sem eru þolinmóðari," segir Jón Bjarki.

Fari svo að þessi jákvæða þróun haldi áfram og að erlenda gengið nálgist enn meir hið opinbera, sem nú stendur í tæpum 173 kr., hjálpar það til við að létta enn frekar á gjaldeyrishöftunum að mati Jóns Bjarka.

Nefna má að þegar gengið var hvað lægst í vetur á erlenda markaðinum fór það niður í 260 kr. fyrir evruna. Algengt verð hefur legið á bilinu 220 til 240 kr. á síðustu mánuðum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×