Viðskipti innlent

Vextir lækkaðir þegar endurskoðun AGS er í höfn

Greining Íslandsbanka telur að peningastefnunefnd Seðlabankans muni ákveða að lækka vexti bankans í næsta mánuði ef endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verður í höfn. Næsti vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans er 5. nóvember næstkomandi.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að í ljósi þess hve tíminn er naumur fram að vaxtaákvörðunardeginum og að endurskoðun AGS hvílir m.a. á samþykkt Alþingis á ríkisábyrgð vegna Icesave telur greiningin þó líklegra að peningastefnunefnd bankans ákveði að halda vöxtum óbreyttum nú en að hún setji niður viðbótarvaxtaákvörðunardag í byrjun desember þar sem hún mun ákveða að lækka vexti bankans enda ætti endurskoðun AGS að vera í höfn þá.

„Við teljum að vaxtalækkunin, hvort sem hún verður núna í byrjun nóvember eða desember, verði með þeim hætti að nefndin ákveða að lækka vexti í sjö daga veðlánum til innlánsstofnana um 0,5 til 1,0 prósentu þ.e. úr 12% niður í 11,0-11,5%," segir í Morgunkorninu.

„Einnig teljum við að nefndin ákveði að lækka innlánsvexti sína, sem við aðstæður sem nú eru á fjármálamarkaði eru hinir raunverulegu stýrivextir og hinn raunverulegi mælikvarði á aðhald peningastefnunnar, um 0,25-0,50 prósentur þ.e. úr 9,5% í 9,0-9,25%. Teljum við að nefndin muni enn vilja draga úr umframlausafé í fjármálakerfinu og draga þannig markaðsvexti nær vöxtum bankans. Með þessu væri nefndin að fara svipaða leið og Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, lagði til á síðasta vaxtaákvörðunarfundi nefndarinnar en ekki var meirihluti fyrir í nefndinni þá."

Ennfremur segir í Morgnkorninu að ýmis merki hafa komið fram frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi Seðlabankans í lok september sem ættu að hvetja nefndina til að lækka vexti nú. Má þar nefna að gengi krónunnar hafi haldist nokkuð stöðugt þrátt fyrir lítil sem engin inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði og minnkandi afgang af þjónustujöfnuði. Verðbólgan mun líklega hafa lækkað nokkuð þegar að ákvörðun nefndarinnar kemur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×