Erlent

Börnum bjargað úr kynlífsþrælkun

Óli Tynes skrifar

Alríkislögreglan FBI lét til skarar skríða í þrjátíu og sex borgum Bandaríkjanna eftir ítarlega rannsókn og söfnun sönnunargagna.

Börnin voru alls fimmtíu og tvö og yfirvöld segja að hið yngsta hafi verið tíu ára. Sextíu dólgar voru handteknir um leið og börnin voru frelsuð.

Talsmaður alríkislögreglunnar sagði á fundi með fréttamönnum að dólgarnir reyndu að veiða börn á spjallrásum eins og Facebook og MySpace.

Þeir reyndu svo að gera þau háð eiturlyfjum til þess að ná valdi yfir þeim. Ásóknin í börn væri mikil vegna þess að hagnaðarvonin væri meiri.

Því yngri sem börnin væru þeim mun dýrara væri hægt að selja þau.

Þetta áhlaup lögreglunnar er aðeins nýjasti kaflinn í langtíma aðgerð sem beinist gegn barnavændi í Bandaríkjunum.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×