Viðskipti innlent

Hagkerfið dróst saman eftir að stóriðjuframkvæmdum lauk

„Fjárfesting í hagkerfinu hefur dregist mikið og hratt saman frá því að stóriðjuframkvæmdum á Austurlandi lauk síðastliðið vor. Við þann samdrátt hefur svo bæst fjármálakreppa á svo að segja versta tíma enda skellur hún á beint ofan í tímabil sem þegar einkenndist af lægra fjárfestingastigi og hefur því dýpri og langvinnari áhrif en ella hefði verið," þetta kemur fram í morgunkorni Íslandsbankans frá því í morgun. Þar segir ennfremur:

Þessi mikli viðsnúningur í fjárfestingu er sérstaklega harður í ljósi þess hversu hátt fjárfestingastigið hefur verið í hagkerfinu á undanförnum árum en árið 2006 nam fjárfesting tæplega 35 prósent af landsframleiðslu sem var bæði langt yfir sögulegu meðaltali og því sem sést í öðrum iðnvæddum ríkjum. Á síðasta ári nam fjárfesting hinsvegar aðeins 22 prósent af landsframleiðslu og mun þetta hlutfall enn lækka í ár.

Þá kemur fram í morgunkorninu að gríðarlegur samdráttur hafi orðið í fjárfestingu atvinnuveganna á fyrsta ársfjórðungi. Samdrátturinn frá sama tímabili á síðasta ári var 57 prósent. Samdráttur á fyrsta ársfjórðungi þessa árs kemur í kjölfar 27 prósent samdráttar í fjárfestinu atvinnuveganna samkvæmt morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×