Erlent

Þúsundir fastar í rústum húsa

Eitt af ónýtu húsunum í Padang. Meira en 500 byggingar eyðilögðust í borginni.fréttablaðið/AP
Eitt af ónýtu húsunum í Padang. Meira en 500 byggingar eyðilögðust í borginni.fréttablaðið/AP

Björgunarfólk á Indónesíu leggur nótt við dag til að reyna að bjarga fólki úr rústum húsa sem hrundu þegar tveir harðir jarðskjálftar urðu þar á miðvikudag.

Tala látinna var í gær komin yfir 1.100, en líklegt þótti að hún ætti eftir að hækka talsvert. Þúsundir manna eru taldar grafnar undir húsarústum. Ekki er vitað hve margir eru á lífi undir rústunum eða hve lengi þeir halda út.

Verst virðist ástandið vera í borginni Padang á eyjunni Súmötru. Þar eyðilögðust meira en 500 byggingar, þar á meðal skólar, sjúkrahús og hótel.

„Við skulum ekki vanmeta skaðann. Búum okkur undir það versta. Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að bjarga fólki,“ sagði Susilo Bambang Yudhoyono forseti í höfuðborginni Jakarta áður en hann flaug til Padang.

Þar í borg lögðu björgunarmenn mikla áherslu á björgunarstarf í fjögurra hæða steinsteyptu húsi, sem hrundi í jarðskjálftanum. Í húsinu voru þrjátíu börn í skólatímum. Fjögur þeirra höfðu fundist á lífi, en sex voru látin og tvísýnt um örlög hinna.

Jarðskjálfti á miðvikudag mældist 7,6 stig og átti upptök sín um það bil 240 kílómetra suður af Padang, en þar búa um 900 þúsund manns.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×