Innlent

Milljarða skattahækkanir í burðarliðnum

Heimir Már Pétursson skrifar

Átta prósenta hátekjuskattur verður lagður á tekjur umfram sjö hundruð þúsund krónur og 15 prósenta viðbótarskattur á fjármagnstekjur umfram tiltekna fjárhæð, samkvæmt efnahagstillögum ríkisstjórnarinnar sem hún stefnir á að leggja fyrir Alþingi á fimmtudag. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun, að hátekjuskatturinn gefi um 2,5 milljarða í tekjur á þessu ári og um fjóra milljarða á ársgrundvelli. Þá mun fjármagnstekjuskatturinn skila um sex milljörðum.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir að fjármagnstekjur af hóflegum sparnaði fólks verði ekki skattlagður sérstaklega en hún og fjármálaráðherra vildu ekki gefa upp hvar mörkin komi til með að liggja í þeim efnum að svo stöddu. Mestu munar hins vegar um hækkun tryggingagjalds, sem er tekjustofn Atvinnuleysistryggingasjóðs. Áætluð hækkun gjaldsins mun skila ríkissjóði um 12 milljörðum króna á ársgrundvelli.

Þegar Steingrímur var spurður hvort fyrirtækin í landinu þyldu þennan viðbótarskatt, sagði hann þessa skattheimtu vissulega leggjast þungt á atvinnulífið. Þessi mál sem önnur hefðu verið rædd á sameiginlegum vettvangi stjórnvalda, Samtaka atvinnulífsins (SA) og Alþýðusambandsins (ASÍ) og forystumenn þeirra samtaka þekktu því vel til tillagna stjórnvalda.

Sjóðir Atvinnuleysistryggingasjóðs eru óðum að þorna upp. Forsætisráðherra segir að athugun hafi leitt í ljós að um 10 % þeirra sem eru á atvinnuleysisbótum ættu ekki að vera á bótum. Félagsmálaráðherra væri að vinna að úrbótum í þessum efnum sem kynntar yrðu bráðlega.

Samanlagt eiga aðgerðir stjórnvalda að skila með auknum tekjum og sparnaði ríflega 20 milljörðum í ríkissjóð á þessu ári og eiga breytingarnar að taka gildi frá og með 1. júlí. Reiknað er með að tillögurnar verði kynntar þingflokkum stjórnar og stjórnarandstöðu á fimmtudag og að umræður um þær geti hafist á föstudag. Mikil áhersla er lögð á að klára s.k. stöðugleikasamning stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins fyrir 25. júlí næst komandi, því um mánaðamót rennur út frestur til að segja upp gildandi kjarasamningum.

Hörð krafa hefur verið gerð af hálfu aðila vinnumarkaðarins um frekari lækkun stýrivaxta en Seðlabankinn ætlar ekki að tilkynna um vaxtaákvörðun fyrr en eftir mánaðmót. Fjármálaráðherra sagði að Seðlabankinn þekkti til þeirra umræðna sem átt hefðu sér stað að undanförnu, en vildi að öðru leyti ekki svara því hvort hann teldi að Seðlabankinn birti ákvörðun um stýrivexti fyrir mánaðamót.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×