Erlent

Bretar draga úr herstyrk í Afganistan næstu árin

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Breskur hermaður í Afganistan.
Breskur hermaður í Afganistan. MYND/Telegraph

Breskum hermönnum í Afganistan mun að líkindum fækka verulega næstu fimm árin og líklegt er að ekki verði nema fáeinir eftir árið 2014.

David Richards hershöfðingi sem fer með æðstu stjórn breska heraflans í Afganistan sagði í viðtali við BBC að hann væri sammála þeirri greiningu breskra hermálayfirvalda að æskilegt væri að byrja markvisst að draga úr herstyrk Breta í Afganistan eftir því sem her og lögreglu heimamanna yxi fiskur um hrygg.

Richards segist eiga von á því að hermönnum muni hafa fækkað töluvert eftir þrjú ár en um þessar mundir eru 9.000 breskir hermenn staddir í Afganistan auk þess sem Gordon Brown forsætisráðherra kynnti í síðustu viku þá fyrirætlan sína að senda 500 hermenn þangað til viðbótar.

Richards er þó á því að þótt megnið af heraflanum sneri heim yrðu breskir og bandarískir hermenn í landinu í mörg ár til viðbótar til að gegna vissu stuðningshlutverki við afgönsk stjórnvöld og tryggja eðlilega uppbyggingu í landinu eftir stríðsátök undanfarinna ára. Í því sambandi nefnir Richards allt að þrjá til fjóra áratugi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×