Viðskipti innlent

Þrefalt dýrara að leigja ýsu- og ufsakvóta

Kvótaleiga Aflaheimildir í ýsu og ufsa voru mikið skertar frá síðasta ári. Eftirspurn eftir leigukvóta í þessum tegundum hefur stóraukist í kjölfarið og verðið þrefaldast.
fréttablaðið/Stefán
Kvótaleiga Aflaheimildir í ýsu og ufsa voru mikið skertar frá síðasta ári. Eftirspurn eftir leigukvóta í þessum tegundum hefur stóraukist í kjölfarið og verðið þrefaldast. fréttablaðið/Stefán

Stóraukin eftirspurn er eftir leigukvóta, einkum ufsa- og ýsukvóta en útgefnar aflaheimildir beggja tegundanna voru skertar mikið við upphaf þessa fiskveiðiárs.

Sú eftirspurn kemur fram í stórhækkuðu verði á leigukvóta, sem hefur meira en þrefaldast frá sama tíma á síðasta ári.

Þann 21. október á síðasta ári var meðalverð á ýsukvóta um 40 krónur en í gær var verðið 150 krónur á hvert kíló. Í fyrradag seldist aflamark á ufsa fyrir um 70 krónur hvert kíló en var um 17 krónur á sama tíma á síðasta ári.

Leyfilegur heildarafli ufsa er nú 50.000 tonn. 17.888 tonn hafa verið flutt milli skipa óskyldra aðila, eða rúmur þriðjungur aflaheimilda. Á síðasta ári mátti veiða 65.000 tonn af ufsa. Viðskipti hafa átt sér stað með 13.680 tonn af ýsukvóta. Þar er útgefinn kvóti 63.000 tonn.Á síðasta ári mátti veiða 93.000 tonn af ýsu.

Fyrstu sjö vikur fiskveiðiársins, það er frá 1. september til 20. október, voru alls 69.395 tonn af aflaheimildum í bolfiski, humri og úthafsrækju flutt á milli skipa, samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu. Það er nokkru minni kvótaleiga en á síðasta ári þegar rúm 81.000 tonn voru leigð milli skipa fyrstu sjö vikur fiskveiðiársins.

Heimilt var að veiða 162.500 tonn af þorski á síðasta ári en í ár er leyfður heildarafli 150.000 tonn. Verð á leigukvóta í þorski hefur hækkað talsvert milli ára, miðað við stikkprufur Fréttablaðsins, teknar af vef Fiskistofu. Hinn 21. október 2008 var meðalverð 238 krónur á kíló af þorskaflamarki. Verðið var um 260 krónur að meðal­tali í gær og hefur verið á bilinu 250 til 270 krónur flesta daga undan­farnar sjö vikur. Meðal­verð var yfirleitt 200-240 krónur í upphafi fiskveiðiársins í fyrra.

Alls hafa 15.262 tonn af þorskkvóta verið leigð milli skipa óskyldra aðila það sem af er fiskveiðiárinu, sem er rúmlega tíu prósent aflaheimildanna.

Af öðrum tegundum hefur hlutfallslega mikið verið leigt milli skipa af keilu, skötusel, steinbít og löngu.

Skötuselskvótinn er nú 2.500 tonn en viðskipti hafa átt sér stað með 1.043 tonn. Að auki skiptu 24 tonn af skötuselskvóta um hendur í viðskiptum í gær og var meðalverðið þar 272 krónur á kíló. Á sama tíma á síðasta ári var leiguverð á skötusel um 110 krónur. Þá hafa 3.017 tonn af 5.500 tonna keilu­kvóta skipt um hendur. Verðið er nú um 40 krónur en var um 25 krónur á kíló á síðasta ári.

peturg@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×