Viðskipti innlent

FÍS vill 10% launalækkun hjá ríkinu og niðurskurð útgjalda

Félag íslenskra stórkaupmanna (FÍS) telur mikilvægt að hagstjórn og ríkisfjármál taki mið af því að örva þarf fjárfestingu og koma atvinnulífi á skrið á nýjan leik. Þess vegna ber að forðast skattahækkanir. FÍS leggur þess í stað til að launakostnaður hins opinbera lækki um 10%. Með því gætu sparast um 20-25 milljarðar. Að auki verði hagrætt í rekstri fyrir um 50 milljarða króna.

FÍS kynnti í dag tillögur sínar um örvun efnahagslífsins. Í tillögunum er lögð áhersla á almennar aðgerðir sem gagnast öllum atvinnurekstri og geta þar með nýtt þann drifkraft sem lítil og meðalstór fyrirtæki eru í efnahagslífinu, að því er segir í tilkynningu frá félaginu. Þannig geta hvatar til fjárfestinga skapað umhverfi þar sem ekki aðeins verður fýsilegt að ráðast í stórframkvæmdir, heldur einnig fjárfestingar í almennum atvinnurekstri. Með þessu eru skattstofnar efldir til framtíðar.

Þær aðgerðir sem FÍS vill m.a. ráðast í eru:

Skattafsláttur til einstaklinga vegna kaupa á hlutafé í atvinnurekstri . Slíkt skapi hvata til fjárfestinga í hlutafé, eykur tiltrú erlendra aðila og stuðlar að (endur)uppbyggingu hlutabréfamarkaðar

Tímabundið afnám innflutningsgjalda á fjárfestingarvörum. Það hvetur fyrirtæki til fjárfestinga og uppbyggingar, laðar að erlenda fjárfesta inn í innlend verkefni.

Flýtiafskriftir vegna fjárfestingar í fastafjármunum. Slíkt hvetur til frekari fjárfestinga og á sérstaklega við um skuldlaus/-lítil fyrirtæki

Tillögur FÍS ber að skoða með hliðsjón af eftirfarandi:

Einkageirinn(einkaneysla og fjárfesting) hefur dregist saman um 40% frá 2007 til 2009. U.þ.b. 11.000 störf hafa tapast í einkageiranum á einu ári, auk þess sem fyrirtæki hafa hagrætt frekar í launakostnaði með skerðingu á yfirvinnu og starfshlutfalli

Raunvöxtur ríkisútgjalda frá 2007 til 2009 er u.þ.b. 10%. Ríkisútgjöld hafa vaxið um 130 milljarða króna á föstu verðlagi á aðeins 6 árum

Tillaga FÍS myndi lækka rekstrargjöld ríkis til samræmis við stöðuna árið 2006 og felur í sér að hægt er að verja opinber störf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×