Viðskipti innlent

Greining: Lítill munur á efnahagsspám fyrir Ísland

Lítill munur er á þeirri efnahagsspá sem hagdeild Alþýðusambands Íslands (ASÍ) birti í gær og þeim hagspám sem birtar voru í upphafi þessa mánaðar af fjármálaráðuneytinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS).

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að spár þessara aðila hljóða upp á um 8,1-8,5% samdrátt landsframleiðslu í ár og um 1,9-2,9% samdrátt til viðbótar á næsta ári. Í spánum er reiknað með 8,2-8,6% atvinnuleysi í ár og að það nái hámarki í 10,0-10,6% á næsta ári.

Þá er í spánum reiknað með því að hratt dragi úr verðbólgu á næstunni og að hún verði 3,1-5,0% á næsta ári. Þar felst munurinn aðallega í forsendum um hvort gengi krónunnar haldist stöðugt eða styrkist á næstu misserum en enginn þessara aðila er að spá því að krónan veikist frekar.



Breytingarnar í hagspám allra þessara aðila undanfarið hafa verið á þann veg að nú er gert ráð fyrir minni samdrætti landsframleiðslu í ár en áður var áætlað. Hagþróun það sem af er ári sýnir að þær spár sem þessir aðilar og fleiri birtu fyrst eftir hrun bankanna í fyrra voru of svartsýnar hvað efnahagsþróunina í ár varðar.

Á móti eru þessir aðilar nú að reikna með meiri samdrætti á næsta ári en í fyrri spám. Þannig er búist við að nokkuð sé enn í botn kreppunnar. Sem dæmi má nefna þá spáði hagdeild ASÍ því í byrjun júlí á þessu ári að samdrátturinn yrði 10,0% í ár og 1,0% á næsta ári. Nú spáir deildin því að samdrátturinn í ár verði 8,1% en 2,9% á næsta ári. Líkt og AGS og fjármálaráðuneytið reiknar hagdeild ASÍ með því að efnahagslægðin nái botni á fyrri hluta næsta árs.



Allar ofangreindar spár lýsa því hvað verður ef efnahagsáætlun AGS og íslenskra stjórnvalda gengur upp. Ber að taka spánum með það í huga. Óhætt er að segja að margt hefur þar gengið hægar en upprunalega var áætlað. Stöðugleiki hefur hins vegar náðst á gjaldeyrismarkaði en í öllum spánum er reiknað með því að krónan annað hvort haldist stöðug eða styrkist á næstunni. Þannig reiknar hagdeild ASÍ með því að gengisvísitalan verði 217 á næsta ári að meðaltali og 208 árið 2012 en nú er vísitalan í 234 stigum.



Miðað við þá miklu óvissu sem er í efnahagsmálum er hér um ótrúlega lítinn mun í spánum að ræða. Er það ekki nýtt að efnahagspá ráðuneytisins er keimlík spá AGS. Í apríl á þessu ári birti AGS spá um 10,2% samdrátt hér á landi í ár en maí birti ráðuneytið spá um að samdrátturinn yrði 10,6% í ár. Þá var AGS að spá verðbólgu í 10,6% í ár og atvinnuleysi í 9,7% en fjármálaráðuneytið verðbólgu í 10,2% og atvinnuleysinu í 9,6%.

Allir ofangreindir aðilar reikna með því að Seðlabankinn beiti áfram fremur aðhaldssamri peningastefnu en samt að bankinn verði kominn með stýrivexti sína, sem nú eru 12%, niður í 9% í lok árs og að þeir verið að meðaltali 8% á næsta ári og á árunum 2011 og 2012 í kringum 7%.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×