Viðskipti innlent

400 milljónirnar fóru í einkaverkefni Björgólfs

Skuldabréfið sem Fyrirtækjabréf Landsbankans keyptu af Björgólfi Guðmundssyni, fyrrum formanni bankaráðs Landsbankans á 400 milljónir, voru nýttar í einkaverkefni á hans vegum en ekki er ljóst hvaða verkefni um ræðir.

Á vefsíðu Viðskiptablaðsins kemur fram að féð hafi verið notað til þess að fjármagna styrktarsjóð í nafni dóttur hans. Samkvæmt heimildum Vísis þá er um nokkur verkefni að ræða en ekki fékkst staðfest að féð hafi verið nýtt í minningarsjóðinn.

Fyrirtækjabréf Landsbankans, síðar Landsvaki hf., keyptu skuldabréfin af Björgólfi árið 2005. Í fréttatilkynningu frá Landsbankanum kemur fram að eftir bankahrunið hafi nýir stjórnendur tekið við rekstri Landsvaka og ný stjórn skipuð. Það hafi orðið mat þeirra stjórnenda sem þá tóku við, að kaup á áðurnefndu skuldabréfi væri brot á fjárfestingarstefnu sjóðsins.

Málinu hefur því verið vísað til Fjármálaeftirlitsins og rannsóknarnefndar Alþingis. Þess má geta að Björgólfur sjálfur hefur ekki réttarstöðu grunaðs manns. Óljóst er hvort Fyrirtækjabréf Landsbankans hafi mátt kaupa bréfið af einstaklingi.

Samkvæmt heimildum Vísis þá fylgdi Björgólfur ráðum forsvarsmanna sjóðsins en peningarnir voru geymdir í Landsbankanum í Lúxemborg. Það fé var til tryggingar fyrir bréfið en lokaðist inni eftir bankahrun.

Þegar ljóst hafi orðið að Björgólfur myndi ekki standa skil á eftirstöðvum við lokun sjóðsins hafi það verið óhjákvæmileg niðurstaða, sem meðal annars var byggð á óháðri lögfræðiúttekt, að Landsvaki yrði að bera tjónið sem af brotinu leiddi.

Björgólfur var úrskurðaður gjaldþrota fyrr á árinu. Þá skuldaði hann 98 milljarða og er stærsta gjaldþrot Íslandssögunnar.


Tengdar fréttir

Björgólfur Guðmundsson gaf út skuldabréfið

Það var Björgólfur Guðmundsson, fyrrverandi formaður bankaráðs Landsbankans, sem gaf út skuldabréfið sem Fyrirtækjabréf Landsbankans keypti fyrir 400 milljónir árið 2005. Eins og fram kom á Vísi fyrr í dag var um að ræða brot á fjárfestingastefnu sjóðsins og hefur málinu verið vísað til Fjármálaeftirlitsins og Rannsóknarnefndar Alþingis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×