Viðskipti innlent

Ólíklegt að stýrivextir verði lækkaðir í samræmi við kröfur vinnumarkaðarins

Höskuldur Kári Schram skrifar
Gylfi Arnbjörnsson.
Gylfi Arnbjörnsson.
Ólíklegt verður að teljast að Seðlabankinn geti lækkað stýrivexti umtalsvert við næstu vaxtaákvörðun í samræmi við kröfur aðila vinnumarkaðarins. Hröð stýrivaxtalækkun er grunnforsenda stöðugleikasáttmálans.

Ákvörðun Seðlabankans um lækka stýrivexti um aðeins eitt prósentustig í byrjun júnímánaðar olli gríðarlegum vonbrigðum en bankinn hafði áður lýst því yfir að von væri á meiri lækkun.

Óvissa um stöðu ríkisfjármála og lækkandi gengi krónunnar olli því hins vegar að bankinn treysti sér ekki meiri lækkun. Þá lagðist Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gegn stýrivaxtalækkun þar sem slíkt myndi veikja gengi krónunnar.

Aðilar vinnumarkaðarins hafa kallað eftir umtalsverði stýrivaxtalækkun og lýst því yfir að það væri grunnforsenda stöðugleikasáttmála.

Þá skoðun ítrekaði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, að loknum fundi með forsætisráðherra í gær.

Stýrivextir eru að jafnaði endurskoðaðir einu sinni í mánuði en peningastefnunefnd Seðlabankans hefur heimild til að taka vaxtaákvarðanir oftar.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar frá 4. júní síðastliðnum kemur fram að áfram verði dregið úr peningalegu aðhaldi að því gefnu að gengisþróun verði hagfelld. Krónan hefur hins vegar haldið áfram að veikjast. Í byrjun júnímánaðar stóð evran í tæpum 175 krónum en er nú um 180 krónur

Þá spáir Landsbankinn verðbólguskoti í júnímánuði og að 12 mánaða verðbólga hækki um hálft prósentustig - meðal annars vegna skattahækkana á áfengi og eldsneyti og veikingar krónunnar.

Svigrúm peningastefnunefndar til stýrivaxtalækkunar er því afar takmarkað og ólíklegt að umtalsverð vaxtalækkun komi til.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×