Viðskipti innlent

Kaupþing tekur yfir Heklu

Kristján Már Unnarsson skrifar

Kaupþing hefur tekið yfir bílaumboðið Heklu með nauðasamningum við fyrrverandi eigendur, sem fá að halda eftir hluta af fyrirtækjasamsteypunni.

Búist er við að formlega verði tilkynnt um eigendaskiptin í dag en þau gerast eftir að fyrirtækið komst í greiðsluvandræði í kjölfar mikils samdráttar í bílasölu.

Hekla er eitt rótgrónasta bílaumboð landsins, stofnað árið 1933 og lengst af í eigu sömu fjölskyldu, Sigfúsar Bjarnasonar og barna hans, allt til ársins 2002.

Fyrir sjö árum fór Tryggvi Jónsson fyrir hópi fjárfesta sem keyptu Heklu en frá árinu 2005 hefur fyrirtækið verið í eigu Frosta Bergssonar, Hjörleifs Jakobssonar, Íslensk-Ameríska og Knúts Haukssonar forstjóra, sem nú neyðast til að láta fyrirtæki af hendi til viðskiptabanka síns, Kaupþings. Hekla hefur umboð fyrir þekktar bílategundir eins og Volkswagen, Mitsubishi, Skoda og Audi.

Þá hefur Hekla einnig umboð fyrir Caterpillar-vinnuvélar, Scania-vörubíla og Goodyear-hjólbarða. Systurfyrirtækið Askja er með Mercedes bens og Kia-umboðið með Kia bíla og er búist við að fyrrverandi eigendur Heklu haldi eftir þeim fyrirtækjum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×