Erlent

Loftsteinn skall til jarðar í Lettlandi

Óli Tynes skrifar

Loftsteinn sem skall til jarðar í Lettlandi í gærkvöldi skildi eftir sig gíg sem er fimmtán metrar í þvermál og fimm metrar á dýpt.

Inga Vetere talsmaður björgunarmiðstöðvar á svæðinu segir að í raun sé ekki vitað hvað þarna var á ferðinni, en gert sé ráð fyrir að þetta hafi verið loftsteinn.

Rannsóknarsveit frá hernum hefur gert mælingar við gíginn og Vetere segir að geislun hafi mælst eðlileg.

Lögreglan hefur nú girt svæðið af og beðið er eftir jarðfræðingum frá háskólanum í Lettlandi til þess að skera úr um hvort þetta hafi verið loftsteinn.

Ef svo reynist vera verður það vísindamönnum mikið rannsóknarefni, þar sem loftsteinar sem koma inn í gufuhvolf jarðar brenna að jafnaði upp, eða finnast sjaldnast þótt þeir skelli til jarðar.

Hluturinn kom niður skammt frá bóndabæ nálægt landamærunum að Eistlandi. Sjónarvottur segir að hljóðið sem frá honum kom hafi verið svipaður og frá flugvél í lágflugi.

Ekki sjást þó nein merki um flugvélarbrak í gígnum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×