Viðskipti innlent

Útibústjórinn grunaður um óeðlileg hlutabréfaviðskipti

Guðmundur Ingi Hauksson rétt eftir að hann tók við starfi sínu sem útibústjóri.
Guðmundur Ingi Hauksson rétt eftir að hann tók við starfi sínu sem útibústjóri.

Útibústjórinn Guðmundur Ingi Hauksson er grunaður um að hafa stundað óeðlileg hlutabréfaviðskipti árið 2005 en mögulegt er að hann hafi gerst brotlegur varðandi innherjaviðskipti samkvæmt heimildum Vísis.

Guðmundur Ingi er 39 ára gamall og hefur verið útibústjóri aðalútibús Landsbankans við Austurstræti síðan árið 2003. Þá tók hann við af Ingólfi Guðmundssyni. Hann er menntaður verkfræðingur og útskrifaðist með MBA gráðu frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands árið 2002.

Landsbankinn sendi frá sér yfirlýsingu í kvöld þar sem sagði frá því að Guðmundi hefði verið vikið úr starfi og að meint brot hans hefðu verið vísað til Fjármálaeftirlitsins annarsvegar og svo efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra hinsvegar.

Heimildir Vísis herma að Guðmundur hafi lánað þriðja aðila háar fjárhæðir til hlutabréfakaupa árið 2005. Á meðal hlutabréfa sem eiga að hafa verið keypt voru bréf í Landsbankanum. Meðal þess sem er rannsakað er hvort hann hafi stundað innherjasvik. Verði hann fundin sekur þá getur það varðað sektum eða fangelsi allt að sex árum samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.

Ekki hefur náðst í Guðmund Inga þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Forsvarmenn Landsbankans vilja ekki tjá sig um málið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×