Viðskipti innlent

Hefðum sloppið við gjaldeyriskreppuna með ESB-aðild

Ísland væri ekki að takast á við gjaldeyriskreppu og alveg spurning hvort að bankakreppan væri hér ef Ísland hefði verið aðili að Evrópusambandinu. Þetta er álit greiningar Glitnis.

Greining segir í Morgunkorni sínu að líklegt sé að staða fjármálakerfisins hér á landi væri með öðru sniði í dag ef að Ísland hefði verið aðili að ESB með evru sem gjaldmiðil og öruggt bakland í Seðlabanka Evrópu þegar óveðrið skall á.

Þá vitnar greiningin til forsætisráðherra Írlands sem sagði fyrir skömmu að aðild að ESB og upptaka evrunnar hefði bjargað Írlandi frá því að hljóta sömu örlög og Ísland í fjármálakreppunni.

Þá var Ungverjaland talið standa skör frammar meðal þeirra ríkja sem leitað hafa til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) vegna þeirrar verndar sem Ungverjar njóta nú þegar í gegnum aðild sína að ESB.

Enda kom Ungverjaland að opnum dyrum í Seðlabanka Evrópu og hlaut 5 milljarða evra fyrirgreiðslu til að styðja við gjaldmiðilinn sinn, forintuna sem hefur líkt og aðrar hávaxtamyntir verið undir miklum þrýstingi undanfarnar vikur.

Það má öllum vera ljóst að Ísland hefði fengið meiri stuðning frá Evrópuþjóðum og Seðlabanka Evrópu ef við hefðum verið aðilar að Evrópusambandinu. „Þetta hlýtur að vega þungt þegar við munum skoða hvernig hægt verði að koma í veg fyrir að atburðarás síðustu vikna endurtaki sig," segir í Morgunkorninu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×