Viðskipti erlent

Norsk sveitarfélög fá úr þrotabúi Terra

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Álasund í Noregi Í Noregi er víða ægifagurt um að lítast. Átta sveitarfélög sem fjárfest höfðu í undirmálalánaskuldabréfavafningum fá til baka um þriðjung upphæðarinnar sem fjárfest var fyrir.
Álasund í Noregi Í Noregi er víða ægifagurt um að lítast. Átta sveitarfélög sem fjárfest höfðu í undirmálalánaskuldabréfavafningum fá til baka um þriðjung upphæðarinnar sem fjárfest var fyrir. Markaðurinn/ÓKÁ
Skiptastjóri norska verðbréfamiðlunarfyrirtækisins Terra Securities ASA hefur viðurkennt kröfu átta norskra sveitarfélaga í þrotabú fyrirtækisins, að því er norskir fjölmiðlar greindu frá í gær.

Krafan er til komin vegna fjárfestingar sveitarfélaganna í skuldabréfavafningum tengdum bandarískum undirmálslánum fyrir 1.451 milljón norskra króna, eða tæpa 22 milljarða íslenskra króna. Í þrotabúinu fyrirfinnast hins vegar ekki nema 725 milljónir norskra króna, eða sem nemur tæpum ellefu milljörðum íslenskra króna.

Skuldabréfavafningarnir voru seldir með miklum afföllum, en samkvæmt úrskurði skiptastjórans skal söluandvirðið renna til sveitarfélaganna sem í þeim höfðu keypt. Heildarendurgreiðsla nemur þó ekki nema 434,8 milljónum norskra króna (6,5 milljörðum íslenskra króna) eða tæpum þriðjungi af heildarfjárfestingu sveitarfélaganna.

Sveitarfélögin sem um ræðir eru Bremanger, Hattfjelldal, Haugesund, Hemnes, Kvinesdal, Narvik, Rana og Vik. Þau eru gjarnan nefnd Terra-sveitarfélögin, en mikið hneykslismál varð úr þegar upplýstist um fjárfestingar þeirra í nóvember í fyrra. Terra Securities hafði milligöngu um kaup sveitarfélaganna í skuldabréfavafningum vestanhafs, en vafningarnir voru í eigu bandaríska stórbankans Citigroup.

Heildarkröfur í þrotabú Terra Securities nema 1,7 milljörðum norskra króna og eru þar sveitarfélögin átta langfyrirferðarmest, með 85 prósent krafnanna. Heildarfjöldi krafna er hins vegar 393 að því er frá er greint í frétt Aftenposten.

Þegar dregin hefur verið frá greiðslan sem samþykkt var til sveitarfélaganna eru eftir 317,5 milljónir norskra króna í þrotabúinu. Sú greiðsla skiptist á milli sveitarfélaganna og annarra kröfuhafa í hlutfalli við kröfur. Heildarendurgreiðsla til sveitarfélaganna átta nemur því að sögn Aftenposten 502,8 milljónum norskra króna, eða rúmum 7,5 milljörðum íslenskra króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×