Skoðun

Fjármálaeftirlitið og Fiskistofa

Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og einn ráðherra hafa nýlega, í blaðagrein og blaðaviðtali, borið saman starfsmannafjölda Fjármálaeftirlitsins og Fiskistofu. Það er mér hulið hvað þessi samanburður á að þýða, ég kem ekki auga á hvað geti verið sambærilegt í starfsemi þessara stofnana. Þjónar það einhverjum tilgangi að bera saman starfsmannafjölda í Fjármálaeftirlitinu og fjölda veiðieftirlitsmanna Fiskistofu til sjós og lands? Ég get ekki séð það, en get upplýst að eftirlitsmenn Fiskistofu, í almennu eftirliti, á aðalskrifstofunni, á 6 starfsstöðvum úti á landi og í fullvinnsluskipum, eru samtals 42.

Er þá e.t.v. raunhæft að bera saman starfsmannafjölda í Fjármálaeftirlitinu og fjölda þeirra starfsmanna Fiskistofu sem vinna við útgáfu og flutning veiðiheimilda, upplýsingasöfnun, úrvinnslu og veitingu upplýsinga úr sjávarútvegi, m.a. til alþingismanna, tölvuþjónustu fyrir Hafrannsóknastofnun o.s.frv.? Er ekki álíka gáfulegt að bera starfsmannafjölda Fjármálaeftirlitsins saman við fjölda starfsmanna Landhelgisgæslunnar, Lögreglunnar, Samkeppniseftirlitsins eða fjölda meindýraeyða?

Ég verð að viðurkenna að ég botna bara ekkert í því hvert Illugi Gunnarsson og Bjarni Benediktsson eru að fara þegar þeir segja í annars ágætri grein í Fréttablaðinu, 13. des., að Fjármálaeftirlitið sé aðeins með 60% af þeim mannafla sem Fiskistofa hefur.

Og að lokum skulu alþingismenn, og aðrir sem haldið hafa því fram að starfsmenn Fiskistofu séu 200 talsins, upplýstir um að heildarfjöldi starfsmanna Fiskistofu er 82, auk tveggja eftirlitsmanna í hlutastarfi í Hull og Grimsby. Fyrir 5 árum voru starfsmenn Fiskistofu 96 talsins. Síðan þá hafa 5 ný störf orðið til hjá Fiskistofu. Á móti hafa 12 störf verið flutt frá Fiskistofu til Matvælastofnunar. Starfsmönnum Fiskistofu hefur því í raun fækkað um 7 á síðastliðnum 5 árum.

Fækkun starfsmanna Fiskistofu kemur ekki til af því að verkefnin hafi skroppið saman heldur hefur hún náðst fram með hagræðingu, betra skipulagi og aukinni rafrænni stjórnsýslu. Þessu má einnig þakka þá staðreynd að Fiskistofa hefur aldrei, í þau 16 ár sem stofnunin hefur starfað, farið fram úr fjárheimildum sínum.

Höfundur er fiskistofustjóri.




Skoðun

Sjá meira


×