Viðskipti innlent

RÚV var á yfirdrætti vegna launakostnaðar

Páll Magnússon útvarpsstjóri.
Páll Magnússon útvarpsstjóri. Mynd/ GVA.

Ríkisútvarpið ohf skuldaði ríkissjóði 367 milljónir króna við lok uppgjörstímabils fyrirtækisins vegna launakostnaðar. Þetta kemur fram í ársskýrslu Ríkisútvarpsins fyrir uppgjörstímabilið 1. apríl til 31. ágúst 2007.

Sigurður Þórðarson ríkisendurskoðandi segir í samtali við Vísi að það geti ekki verið hlutverk ríkissjóðs að fjármagna launagreiðslur opinbers hlutafélags með þessum hætti. Það sé ekki heimild fyrir því. Ríkisútvarpið sjálft ætti að greiða þetta. Segja megi að skuldin sé ígildi yfirdráttar í banka.

„Fram að áramótum síðustu sá fjársýsla ríkisins um launagreiðslurnar og þangað til stofnefnahagsreikningurinn lá fyrir vissum við ekki hvað við ættum að borga mikið til baka," segir Páll Magnússon útvarpsstjóri. Páll segir að búið sé að greiða skuldina núna. Hún hafi verið greidd um leið og stofnefnahagsreikningurinn var gerður.

Þess má geta að heildarlaunakostnaður Ríkisútvarpsins á þessum fimm mánuðum sem árskýrslan nær til er 833 milljónir króna. Því skuldaði RÚV ríkinu nær helming þeirrar fjárhæðar við lok uppgjörstímabilisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×