Skoðun

Stúdentatíð í kreppuhríð

Björg Magnúsdóttir skrifar

Aktívisminn blómstrar, fólk flykkist út á götu og tún til að mótmæla seðlabankastjóra, verri kjörum, auknu atvinnuleysi í landinu og almennar bollaleggingar eru daglegt brauð. Stúdentar sitja ekki flötum beinum í þannig árferði enda væri slíkt á skjön við þá iðandi flóru sem Háskólann fyllir og framtíðarlandið byggir.

Umbjóðendur Stúdentaráðs velta nú fyrir sér kostum þeirra og kjörum hjá Lánasjóðnum, knýja fram breytingar og bætur hjá honum og íhuga hvort vinnu sé að fá að háskólaprófi loknu. Mikið er skrafað um það hvort Ísland sé yfir höfuð fýsilegasti kostur til framtíðarbúsetu. Sumir lýsa yfir litlum áhuga á að sjá skattgreiðslur sínar til ríkisins næstu áratugi hverfa beint í körfu afborgana risalána.

Stúdentaráð Háskóla Íslands bregst við ástandinu með sínum bestu vopnum, opinni umræðu og stefnumótun framtíðarinnar. Allt undir yfirskriftinni Stúdentatíð í kreppuhríð en um er að ræða hrinu hádegismálþinga á háskólasvæðinu. Fyrsta málþingið er í dag, miðvikudag, og skal ræða stúdenta og peninga. Þar verður staða LÍN reifuð og rædd, breytingar á sjóðnum, hækkandi stýrivextir og almenn peningamál.

Á morgun, fimmtudag, er áætlað að ræða stúdenta og atvinnu. Mikilvægi Háskóla Íslands og opinni menntun á tímum sem þessum, atvinnuhorfur nýútskrifaðra og háskólafólks yfir höfuð sem og yfirvofandi tilfærslu vinnuafls. Síðasta málþingið verður á föstudag og þá eru stúdentar og framtíðin útgangspunktur umræðna. Á hverju viljum við að þjóðfélag morgundagsins sé byggt, ef ekki því sem var? Hvers konar siðfræði ætti að brúka og hvaða hugsjónir skyldi setja í forgrunn? Úrvalsgestir úr röðum Íslendinga verða á málþingum Stúdentaráðs og hvetur ráðið námsmenn og þjóðina til þess að fjölmenna, spyrja og hlusta, ræða og móta.

Höfundur er formaður Stúdentaráðs.




Skoðun

Sjá meira


×