Skoðun

Sparisjóðirnir í höndum fjárglæframanna

Grímur Hákonarson skrifar um ByrEftir að íslenska bankakerfið hrundi fyrir um tveimur mánuðum hefur mikið af fólki fært viðskipti sín yfir til sparisjóðanna. Fólk leitar í öryggið á þessum óvissutímum og sparisjóðirnir eru þekktir fyrir að vera hófsamar fjármálastofnanir sem bera hag almennings fyrir brjósti. Mestur hefur flóttinn verið yfir til Byrs Sparisjóðs og tilkynntu stjórnendur hans um daginn að innlánaaukningin frá hruni bankanna væri komin upp í 60 milljarða. Eflaust spilar auglýsingaherferð Páls Óskars þar inn í en ég held að aðalástæðan sé samt sú að fólk lítur á Byr sem traustan og heiðarlegan sparisjóð.

En þegar rýnt er í eigendalista Byrs kemur í ljós að hann er ekki alveg jafn saklaus og hann gefur sig út fyrir að vera. Nokkur eignarhaldsfélög sem tengjast Baugi og FL-Group hafa nánast étið sparisjóðinn upp til agna, eiga samtals um 20-30% stofnfjárins. Þetta eru sömu fjárglæframennirnir og misnotuðu og blóðmjólkuðu Sterling, FL-Group, Glitni og öll hin skúffufyrirtækin. Mennirnir sem eiga stóran þátt í því hvernig komið er fyrir íslensku þjóðinni í dag. Sparisjóður eða spari-baugur?Hvernig fer maður að því að finna sér heiðarlegan banka í dag þegar meira að segja sparisjóðirnir eru komnir í hendurnar á fjárglæframönnunum? Þetta er spurning sem margir spyrja sig og það er mikil eftirspurn í samfélaginu eftir slíkri stofnun. Slíka stofnun er helst að finna úti á landi, t.d í Þingeyjarsýslu, en ég efast um að Þingeyingar hafi áhuga á að fjármagna lífsstíl latte-lepjandi 101-rottu eins og ég er.

Sparisjóðir höfuðborgarsvæðins, Byr og SPRON, eru ekki lengur sparisjóðir nema að nafninu til. Á undanförnum árum hefur farið fram mikil eignatilfærsla innan beggja þessara sjóða. Hópi fjárfesta hefur tekist að sölsa undir sig nær allt stofnféð, sem lögum samkvæmt átti að vera eign almennings á starfssvæðum sjóðanna og óseljanlegt. En með illa ígrunduðum lögum frá Alþingi árið 2001 urðu sparisjóðirnir „óvart“ að markaðsvöru, þ.e. lögum um hlutafélagavæðingu sparisjóðanna. Eins og alltaf þegar almenningseigur eru hf-aðar þá var tekið skýrt fram að það ætti ekki að selja þá, en einhvern veginn enduðu þeir samt í höndunum á fjárglæframönnunum.

Nýju eigendur Byrs eru þegar byrjaðir að sýna sitt rétta andlit og hafa engu gleymt frá dögum FL-Group. Í apríl síðastliðnum tóku þeir 13,5 milljarða út úr sparisjóðnum og greiddu sér sem arð, en erfitt er að sjá hvernig sú aðgerð samrýmist þeim lögum sem gilda um sparisjóði í landinu. Fjármálaeftirlitið gerði ekki neitt í málinu og hefur eflaust nóg annað að rannsaka þessa dagana.

Stærsti eigandi Byrs í dag er fyrrverandi strippbúllueigandinn Magnús Ármann. Magnús komst í kastljós fjölmiðla um daginn þegar fyrirtæki hans, Imon ehf., fjárfesti í Landsbankanum fyrir 9 milljarða rétt fyrir hrun bankans. Þessi dularfullu viðskipti hafa enn ekki verið upplýst og enginn veit hvaðan peningarnir komu. Magnús situr ennþá í stjórn Byrs en samkvæmt öllum pappírum og réttlætislögmálum ætti hann að vera gjaldþrota.

Ég var viðskiptavinur Sparisjóðs Kópavogs í mörg ár áður en hann sameinaðist Byr. Nú er ég sjálfkrafa orðinn „sparigrís“ þessara manna. Hvers á ég að gjalda? Hvað segir gamla fólkið við þessu, sem hefur verið í viðskiptum við SPK alla ævi? Hvers eiga börnin að gjalda sem Byr ætlar að gefa 5.000 krónur í jólagjöf fyrir þessi jól, inn á sérstakan „Framtíðarsjóð Byrs“? Eru sparisjóðir úreltir?Það eru mörg rök fyrir því að viðhalda sparisjóðunum í sinni upprunalegu mynd. Sérstaklega núna þegar gallar hlutafélagaformsins blasa við okkur. Sparisjóðirnir voru stofnaðir á samfélagslegum forsendum og hafa alltaf verið í almenningseign, þ.e. eign sparifjáreigendanna. Fjöldi sparisjóða hafa verið reknir á Íslandi í um heila öld með mjög góðum árangri. Þeir hafa einbeitt sér að hefðbundinni fjármálastarfsemi og bankaþjónustu en ekki verið í áhættufjárfestingum. Það hefur ekki verið markmið sparisjóða að stækka bara til að stækka, eins og var hjá gömlu útrásarbönkunum.

Það merkilega er að þeir sparisjóðir sem gengið hafa lengst í hlutafélagavæðingunni og tútnað hafa mest út á undaförnum árum, þeir standa verst að vígi í dag. Þeir sparisjóðir sem héldu í gömlu hefðirnar eru aftur á móti í ágætis málum. Sá hagfræðilegi rétttrúnaður sem vaðið hefur uppi síðustu árin um „hagkvæmni stærðarinnar“ er því algjört bull.

Hlutafélagaformið er ekki endilega hagkvæmasta og besta rekstarformið eins og haldið hefur verið fram. Það hefur ýmsa ókosti í för með sér. Það býður upp á sjálftöku auðs, samþjöppun valds, óhóf og bruðl, áhættufíkn og útrásargeðveiki: Það býður upp á það að örfáir menn steypi heilli þjóð í glötun, eins og við Íslendingar eru að upplifa núna. Ég heyrði eitt sinn útrásarvíking kvarta yfir því að sparisjóðsformið væri „þungt í vöfum“. En kannski er það einmitt það sem þarf til að beisla útrásarvíkinginn, og beina kröftum hans inn í samfélagið?

Við þurfum að hafa fjölbreytni á fjármálamarkaðnum og þess vegna þurfum við að hafa sparisjóði. Ef við látum það gerast að Byr falli endanlega í hendur auðmannanna, þá þurfum við allavega að tryggja það að hér á höfuðborgarsvæðinu verði starfandi að minnsta kosti einn „decent“ sparisjóður. Stjórnvöld hafa ennþá tækifæri til að stöðva þessa þróun þar sem Byr er ekki orðinn hlutafélag með formlegum hætti. Byr þarf að fá samþykki helstu lánadrottna til að hlutafélagavæðingin gangi í gegn, en gera má ráð fyrir, í ljósi atburða síðustu vikna, að ríkið sé orðið stærsti lánadrottininn. Ég skora því á viðskiptaráðherra og íslensk stjórnvöld að bjarga Byr úr höndum fjárglæframannanna og einnig að slá skjaldborg um þá sparisjóði sem eftir eru í landinu.

Höfundur er kvikmyndagerðarmaður og viðskiptavinur Byrs Sparisjóðs.



Skoðun

Sjá meira


×