Innlent

Leyniskýrslur um Drekasvæðið afhjúpaðar

Orkustofnun tilkynnti í dag að leynd hefði verði aflétt af nærri tuttugu ára gömlum rannsóknarskýrslum sem sýndu fram á olíu og gas á Drekasvæðinu. Leynd var höfð yfir skýrslunum að ósk norskra stjórnvalda en einnig vegna þess að þær voru taldar verðmæt söluvara til olíufélaga.

Skýrslurnar tvær voru gerðar árið 1989 og hafa þar til nú verið varðveittar sem trúnaðarmál, bæði í íslenska og norska stjórnkerfinu en þær fjalla um mögulegar auðlindir í íslenskri og norskri lögsögu á Drekasvæðinu.

Skýrslurnar geyma rannsóknarniðurstöður og sýna fram á verulegar líkur á olíu og gasi á Jan Mayen hryggnum. Að sögn Kristins Einarssonar, verkefnisstjóra olíuleitar hjá Orkustofnun, var það að ósk Norðmanna sem trúnaður var hafður um innihald skýrslanna en þeir töldu málið viðkvæmt í Noregi. Þá töldu menn einnig að skýrslurnar væru verðmæt söluvara til olíufélaga. Þá virðist það einnig hafa spilað inn í ákvörðun um leynd að á sínum tíma var vegna dýpis talið torvelt að vinna olíu á Drekasvæðinu.

Vegna fyrirhugaðs útboðs á rétti til olíuleitar og vinnslu á svæðinu hefur nú hins vegar verið ákveðið að væntanlegir bjóðendur fái að nýta sér innihald skýrslanna og hafa þær verið birtar á enska hluta heimasíðu Orkustofnunar. Jafnframt var í dag tilkynnt sú ákvörðun að aðeins verði boðin út fimm leyfi í þessu fyrsta útboði og verði hvert leyfi takmarkað við 800 ferkílómetra svæði. Útboðið stendur frá miðjum janúar til 15. maí á næsta ári.

Við úthlutun leyfa verður tekið mið af því hversu viljug olíufyrirtækin verða til að styrkja nýjan rannsókna- og menntunarsjóð olíuleitar á íslenska landgrunninu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×