Körfubolti

NBA í nótt: Boston stöðvaði sigurgöngu Houston

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kevin Garnett og Paul Pierce fagna sigrinum í nótt.
Kevin Garnett og Paul Pierce fagna sigrinum í nótt. Nordic Photos / Getty Images

Boston Celtics vann í nótt sigur á Houston Rockets sem fyrir leikinn hafði unnið 22 leiki í röð. Það er næstlengsta sigurganga liðs í sögu NBA-deildarinar.

Þarna mættust einnig efsta liðið í austrinu og efsta liðið í vestrinu en lokatölurnar voru 94-74, Boston í vil.

Staðan í hálfleik var jöfn, 40-40, en Boston skoraði tvöfalt fleiri stig í þriðja leikhluta, 32 gegn sextán. Það var nóg til að tryggja sigurinn á endanum.

Kevin Garnett var stigahæstur leikmanna Boston með 22 stig en Boston hefur nú unnið þrettán af síðustu fjórtán leikjum sínum.

Hjá Houston var Luis Scola stigahæstur með fimmtán stig en liðið er nú jafnt LA LAkers í efsta sæti Vesturdeildarinnar. New Orleans getur jafnað árangur liðanna en liðið á leik til góða.

Lakers var reyndar nálægt því að klúðra 25 stiga forskoti sem liðið var með í þriðja leikhluta gegn Dallas. Lakers náði þó að vinna leikinn, 102-100.

Þegar innan við fimm sekúndur voru til leiksloka var staðan 101-100 og Derek Fisher fékk tvö vítaskot. Hann nýtti aðeins annað þeirra og í blálokin reyndi Dirk Nowitzky að tryggja Dallas sigurinn með þriggja stiga skoti en hann hitti ekki.

Nowitzky var stigahæstur með 35 stig og ellefu fráköst. Koby Bryant skoraði 29 stig fyrir Lakers.

Detroit vann Denver, 136-120, en síðarnefnda liðið er að berjast fyrir sæti í úrslitakeppninni. Í síðasta leik skoraði Denver 168 stig en í þetta sinn fór Detroit á kostum í sókninni.

Liðið skoraði 73 stig í fyrri hálfleik en stigahæstur var Richard Hamilton með 24 stig. Carmelo Anthony skoraði 27 stig fyrir Denver.

Phoenix vann Portland, 111-98. Amare Stoudemire skoraði 25 stig og Shaquille O'Neal var með sextán stig og fjórtán fráköst. Þetta var fimmti sigur Phoenix á Portland í röð.

LaMarcus Aldridge skoraði 31 stig fyrir Portland.

Chicago vann New Jersey, 112-96. Luol Deng skoraði 20 stig og Drew Gooden var með nítján stig og ellefu fráköst.

Vince Carter skoraði 22 stig fyrir New Jersey og Richard Jefferseon 21.

Sacramento vann Golden State, 112-105. Kevin Martin skoraði 34 stig og Ron Artest 26. Hjá Golden State var Baron Davis með 24 stig og átta fráköst.

Golden State er þó enn með eins og hálfs leiks forystu á Denver í baráttu liðanna um áttunda sætið í vestrinu en Sacramento á engan möguleika á að komast í úrslitakeppnina.

Að síðustu vann Miami sigur á Milwaukee, 112-106. Þetta var fyrsti sigur Miami í mars en liðið hafði tapað átta leikjum í röð.

Jason Williams skoraði 21 stig en Michael Redd skoraði 27 stig fyrir Milwaukee.

Staðan í deildinni

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×