Innlent

Lúxusíbúðir seljast þrátt fyrir samdrátt

Andri Ólafsson skrifar
Fjölbýlishúsin sem Skuggi 101 er með í byggingu.
Mynd: 101skuggi.is
Fjölbýlishúsin sem Skuggi 101 er með í byggingu. Mynd: 101skuggi.is

Að sögn Hörpu Þorláksdóttur, markaðsstjóra 101 Skugga, eru 15 lúxusíbúðir af þeim 97 sem félagið byggir nú á Vatnsstíg og Lindargötu þegar seldar. Harpa segir þetta vera í takt við áætlanir en 101 Skuggi hafi fyrirséð tregðu á fasteignamarkaði í byrjun þessa árs.

Húsin sem 101 Skuggi er með í byggingu eru fjögur talsins og var nýlega byrjað að selja íbúðirnar í þeim.

Þótt töluverð lægð sé á markaðnum nú, veltan fyrstu vikuna í febrúar var 3301 milljón til móts við 5086 milljónir á sama tíma í fyrra, eru fasteignasalar sammála um að enn sé nokkur eftirspurn í fasteignir í efsta verðflokki.

Þeir benda á að sá samdráttur sem nú ríkir á fasteignamarkaði hafi ekki endilega áhrif á sölu lúxusíbúða þar sem kaupendur slíkra íbúða séu venjulega ekki hinn íslenski meðaljón.

Til marks um það er ein ef þeim íbúðum sem 101 Skuggi hefur þegar selt, penthouse-íbúð við Vatnsstíg 16-18. Sú íbúð var af mörgum talinn feitasti bitinn sem 101 Skuggi hafði upp á að bjóða en íbúðin er 312 fermetrar á 18. og 19. hæð, í um 65 metra hæð.

Í henni má til dæmis finna 46 fermetra bókastofu, 40 fermetra þakgarð og gufubað. Sú íbúið var seld á litlar 230 milljónir og voru það Jón Ásgeir Jóhannesson og eiginkona hans, Ingibjörg Pálmadóttir, sem festu kaup á íbúðinni. Þau eiga jafnframt 294 fermetra þakíbúð á Vatnsstíg 21.

Af öðrum sem fest hafa kaup á lúxusíbúðum 101 Skugga má nefna eignarhaldsfélag í eigu Kristins Björnssonar, fyrrverandi forstjóra Skeljungs, og Karólínu Lárusdóttur myndlistakonu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×