Innlent

Orkuveitan borar lengstu holu landsins

MYND/Orkuveita

Orkuveita Reykjavíkur hefur látið bora lengstu holu landsins, 3.111 metra langa. Fram kemur í tilkynningu frá Orkuveitunni að holan hafi verið stefnuboruð af norðurhluta Skarðsmýrarfjalls, undir útivistarsvæðið í Innstadal og er botn borholunnar undir suðurhlíðum Hengilsins. Holan var boruð til að afla gufu fyrir Hellisheiðarvirkjun og lofar hún góðu.

Orkuveitan segist stefnubora langflestar holur til þess að raska ekki hinum vinsælu göngusvæðum í Hengladölunum en ná engu að síður að nýta jarðhitann undir þeim.

Lengsta borholan var áður norðan og neðan við Stýrimannaskólann þar sem nú er íbúðabyggð. Hún var boruð árið 1979, lóðrétt niður á 3.085 metra dýpi og því enn sú hola sem nær dýpst niður í jarðskorpuna hér á landi. Vegna sveigjunnar á holunni á Skarðsmýrarfjalli nær hún ekki niður á það dýpi þótt hún sé lengri.

Holan við Skipholtið kann þó endanlega að missa titilinn síðar á árinu þegar lóðréttar holur verða boraðar á Hengilssvæðinu og víðar enda hefur bortækninni fleygt fram, segir Orkuveitan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×