Körfubolti

Ég var ekki að hjálpa Boston

Al Jefferson (t.v.) hefur spilað mjög vel hjá Minnesota þó liðinu gangi afleitlega
Al Jefferson (t.v.) hefur spilað mjög vel hjá Minnesota þó liðinu gangi afleitlega Nordic Photos / Getty Images

Kevin McHale, forseti Minnesota Timberwolves, hafnar því alfarið að hann hafi verið að gera gamla félaginu sínu Boston Celtics greiða þegar hann færði því framherjann Kevin Garnett í skiptum fyrir Al Jefferson og fleiri í sumar.

Skiptin reyndust liði Boston afar mikilvæg því liðið hefur verið í efsta sæti NBA deildarinnar í allan vetur og þykir til alls líklegt í úrslitakeppninni. Á sama tíma hefur árangur Minnesota verið afleitur.

Margir vildu meina að McHale hefði þarna gert gamla liðinu sínu Boston mikinn og stóran greiða, en McHale segir svona tilgátur broslegar.

"Fyrst af öllu er ég með eiganda sem ég þarf að svara og svo eru sjö menn í stjórn félagsins sem hafa líka mikið með þetta að gera. Við fengum fullt af tilboðum og okkur fannst það alltaf vænlegast að taka tilboði Boston þar sem við fengjum 22 ára gamlan Al Jefferson í staðinn. Við fórum 5000 sinnum yfir þetta og komumst að niðurstöðu. Það er fáránlegt að menn haldi því fram að ég hafi gert þetta af því við Danny (Ainge, framkvæmdastjóri Boston) séum vinir," sagði McHale.

Þeir Ainge og McHale léku saman í síðasta gullaldarliði Boston fyrir 20 árum og hafaf gárungarnir í Boston hlegið að því að McHale sé enn að gera gamla liðinu sínu greiða þó hann sé í forsæti hjá öðru liði í deildinni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×