Handbolti

Tíu marka sigur Þýskalands í Danmörku

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Johannes Bitter segir þeim Sebastian Preiss (til vinstri) og Lars Kaufmann til í leiknum í dag.
Johannes Bitter segir þeim Sebastian Preiss (til vinstri) og Lars Kaufmann til í leiknum í dag. Nordic Photos / Bongarts

Þjóðverjar fóru heldur létt með Dani í lokaleik liðanna fyrir EM í Noregi sem hefst á fimmtudaginn. Þýskaland vann öruggan tíu marka sigur, 34-24.

Þjóðverjar höfðu fimm marka forystu í hálfleik, 15-10, en Johannes Bitter fór á kostum í markinu og þýska vörnin reyndist Dönum mjög erfið.

Heimsmeistararnir héldu svo sínu striki í síðari hálfleik og náðu mest ellefu marka forskoti, 29-18, áður en þeir innbyrtu tíu marka sigur sem fyrr segir.

Þetta var fyrsta tap danska landsliðsins fyrir Þýskalandi undir stjórn Ulrik Wibek.

„Frammistaða okkar í dag var ekki jafn góð og í gær," sagði Wilbek en Danir unnu Þjóðverja í Árósum í gær. „En Þjóðverjar spiluðu mjög vel og Bitter var frábær í markinu. Sóknarleikurinn okkar var ekki eins góður og ég vonaðist til," bætti hann við.

Holger Glandorf skoraði sex marka Þjóðverja og þrír leikmenn skoruðu fimm mörk hver.

Hjá Dönum var Lars Christiansen markahæstur með sex mörk en Lasse Boesen gerði fjögur mörk.

Eftir leikinn gerði Heiner Brand þjálfari Þjóðverja Jens Tiedtke ljóst að hann færi ekki með á EM en Christian Schöner missir af mótinu vegna meiðsla.

Brand ætlar að fara með átján leikmenn til Þýskalands en hann má tilkynna mest sextán leikmenn til þátttöku.


Tengdar fréttir

Gæti spilað á EM ári eftir heilaskurðaðgerð

Árið hjá línumanninnum þýska Jens Tiedtke hefur verið viðburðarríkt. Fyrir ári gekkst hann undir heilaskurðaðgerð en svo gæti farið að hann spili með þýska landsliðinu á EM í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×