Körfubolti

NBA í nótt: Golden State vann San Antonio í framlengingu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Baron Davis átti stórleik með Golden State í gær.
Baron Davis átti stórleik með Golden State í gær. Nordic Photos / Getty Images

Baron Davis og Stephen Jackson áttu stjörnuleik er lið þeirra, Golden State, vann San Antonio Spurs í framlengdum leik í nótt, 130-121.

Davis var á góðri leið með að tryggja sínum mönnum sigur í fjórða leikhluta með hverri körfunni á fætur annarri en Tony Parker bjargaði sínum mönnum með þriggja stiga körfu þegar sex sekúndur voru til leiksloka.

Í framlengingunni skoraði Stephen Jackson tólf stig og Davis lét sitt ekki eftir liggja, gaf þrjár stoðsendingar og skoraði mikilvæga körfu. Golden State vann öruggan níu stiga sigur í framlengingunni.

Davis var samtals með 34 stig og fjórtán stoðsendingar í leiknum. Auk þess átti hann hlut í 28 stigum á síðustu tíu mínútum leiksins með því að skora sjálfur eða gefa stoðsendingu.

Jackson var með 29 stig en stigahæstur hjá San Antonio var Tim Duncan með 32 stig og þrettán fráköst. Tony Parker kom næstur með 31 stig og átta stoðsendingar.

Leikkonan Jessica Alba var meðal áhorfenda á leik Golden State og San Antonio í nótt. Unnusti hennar, Cash Warren, er góðvinur Baron Davis. Hér faðmar hún Tony Parker, leikmann San Antonio.Nordic Photos / Getty Images

Aðeins voru tveir leikir í NBA-deildinni í nótt en í hinum vann Phoenix Suns 22 stiga sigur á Denver Nuggets, 137-115, í uppgjöri tveggja toppliða í Vesturdeildinni.

Shawn Marion skoraði 27 stig í leiknum, tók fjórtán fráköst og varði sex skot og átti stærstan þátt í því að binda enda á þriggja leikja sigurgöngu Denver.

Alls skoruðu leikmenn Phoenix 20 þriggja stiga körfur í leiknum, Marion átti þar af fimm. Metið í NBA-deildinni er 21 þriggja stiga karfa hjá einu liði.

Amare Stoudamire og Grant Hill voru með 20 stig hver en sá fyrrnefndi var einnig með tíu fráköst. Steve Nash var með þrettán stig og tíu stoðsendingar.

Hjá Denver var Allen Iverson stigahæstur með 32 stig og Carmelo Anthony var með 20.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×