Körfubolti

Dallas lagði Golden State

Menn tókust hart á í Dallas í nótt
Menn tókust hart á í Dallas í nótt NordicPhotos/GettyImages

Tólf leikir fóru fram í NBA deildinni í körfubolta í nótt. Dallas vann góðan sigur á erkifjendum sínum í Golden State 121-99 og hefur nú unnið sigur í báðum viðureignum liðanna í vetur.

Golden State hafði sterk tök á Dallas á síðustu leiktíð og sló Texas-liðið út úr fyrstu umferð úrslitakeppninnar eins og frægt varð. Dirk Nowitzki skoraði 29 stig fyrir Dallas en Stephen Jackson skoraði 23 stig fyrir Golden State.

Detroit vann tíunda sigurinn í röð með því að leggja Washington 106-93. Rip Hamilton skoraði 20 stig fyrir Detroit en Caron Butler skoraði 22 fyrir Washington.

Cleveland lagði Atlanta 98-94 þar sem LeBron James skoraði 36 stig fyrir heimamenn en Joe Johnson skoraði 24 stig fyrir Atlanta. Cleveland verður í eldlínunni á Sýn á föstudagskvöldið þar sem liðið mætir Sacramento í beinni útsendingu.

Memphis vann loksins sigur eftir fimm töp í röð þegar liðið skellti Indiana 90-72 á útivelli. Pau Gasol skoraði 30 stig og hirti 12 fráköst fyrir Memphis en Mike Dunleavy skoraði 16 stig fyrir Indiana.

New Jersey vann góðan sigur á Orlando á útivelli 96-95 þar sem Vince Carter skoraði 18 stig fyrir New Jersey en Hedo Turkoglu skoraði 23 stig fyrir heimamenn, sem gengur betur á útivöllum en heima í vetur.

Chicago lagði Charlotte á útivelli 109-97. Ben Gordon skoraði 22 stig fyrir gestina en Jason Richardson skoraði 28 stig fyrir Charlotte.

Boston vann nauman heimasigur á Houston 97-93 þar sem Bonzi Wells skoraði 25 stig fyrir Houston en Kevin Garnett skoraði 26 stig og hirti 9 fráköst fyrir Boston.

Milwaukee lagði Miami á útivelli 103-98 þar sem Dwyane Wade skoraði 27 stig fyrir heimamenn en Mo Williams 25 stig fyrir gestina. Shaquille O´Neal og Jason Williams voru ekki með Miami í leiknum vegna meiðsla.

New York tapaði enn og aftur heima og nú fyrir Sacramento 107-97. John Salmons skoraði 32 stig fyrir Sacramento en Eddy Curry skoraði 24 stig fyrir New York. Sacramento er nú án þriggja byrjunarliðsmanna eftir að Ron Artest bættist á meiðslalistann. Hann verður frá í nokkrar vikur.

Portland komst aftur á sigurbraut eftir 90-79 sigur á Minnesota. Al Jefferson skoraði 29 stig og hirti 16 fráköst fyrir Minnesota, en Brandon Roy skoraði 24 stig fyrir Portland.

Utah lagði Philadelphia 110-107. Andre Iguodala skoraði 30 stig fyrir Philadelphia, en Carlos Boozer skoraði 22 stig og hirti 9 fráköst fyrir Utah og Deron Williams skoraði 15 stig og gaf 20 stoðsendingar.

Loks vann New Orleans sigur á LA Clippers á útivelli 95-81 þar sem David West skoraði 29 stig fyrir New Orleans en Corey Maggette skoraði 20 stig fyrir heimamenn.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×