Innlent

Kæra hefur ekki formlega verið lögð fram

Sturla Jónsson talsmaður vörubílstjóra mætti í skýrslutöku til lögreglunnar í morgun. Sturla sætir rannsókn fyrir brot sem hafa í för með sér almannahættu en slík brot varða allt að sex ára fangelsi.

 

Sturla mætti ásamt lögmann sínum til skýrslutöku í morgun laust fyrir klukkan níu. Skömmu síðar mættu félagar hans fyrir utan lögreglustöðina og lögðu þar þremur vörubílum í aðrein að stöðinni. Lögreglan var með nokkurn viðbúnað og gerði sig jafnvel líklega til að færa bílana. Ekki kom þó til þess þar sem að bílstjórarnir færðu bíla sína sjálfir eftir spjall við lögreglu.

Eftir skýrslutökuna sagði Sturla að sér hefði verið birt kæra fyrir að stefna almenningi í hættu með því að stöðva umferð. Samkvæmt heimildum fréttastofu er þó ekki um kæru að ræða að hálfu lögreglunnar á þessari stundu heldur sætir hann einungis rannsókn á brotum 168 grein almennra hegningarlaga. Slík brot eru talin hafa í för með sér almannahættu.

Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn segir nógu erfitt fyrir lögregluna að sinna neyðarakstri í þungri umferð hvað þá þegar götur eru tepptar af bílstjórunum. Sturla segir lögreglu vera að hræða bílstjórana með því að kalla hann á lögreglustöðina. Aðspurður um hvort að aðgerðir þeirra skapi ekki hættu svarar hann því til að það sé stórhættulegt að lifa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×