Innlent

Gjaldeyrisviðskipti í lag á morgun

Forsætisráðherra treystir því að gjaldeyrisviðskipti geti gengið hnökralaust fyrir sig á morgun. Hann segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Geir H. Haarde forsætisráðherra fundaði ásamt fleiri ráðherrum í Ráðherrabústaðnum í dag. Á þeirra fund komu fulltrúar Fjármálaeftirlitsins og skilanefnda bankanna. Geir vildi eftir fundinn ekki tjá sig um efni hans og sagði að ekki hefði verið tekin ákvörðun um að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Gengi krónunnar var á fleygiferð í síðustu viku og erfitt fyrir fólk að gera sér grein fyrir hvert það væri í raun og veru. Þannig var skráning gengisins misjöfn eftir því hvort það var hjá Seðlabankanum, viðskiptabönkunum, kreditkortafyrirtækjum eða erlendum bönkum. Nánast ómögulegt var fyrir Íslendinga að skipta krónum erlendis. Námsmenn ytra lentu jafnframt í vandræðum með að taka út peninga úr hraðbönkum fyrir matvörum og öðrum nauðsynjum. Stórir bankar eins og Danske Bank og Nordea bank ákváðu að taka fyrir allar peningamillifærslur til Íslands. Forsætisráðherra telur að gjaldeyrisviðskipti komi til með að ganga hnökralaust fyrir sig þegar þau hefjast á ný í fyrramáli.

Stefnt er að því að opna fyrir viðskipti í Kauphöllinni í fyrramál. Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, segir þó koma til að álita að fresta því ef rök mæli með því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×